Hótaði lög­reglu­mönnum líf­láti og líkams­meiðingum

Héraðs­dómur Reykja­víkur stað­festi í gær á­kæru yfir manni sem gefið er að sök að hafa í­trekað brotið gegn vald­stjórninni, meðal annars með því að hóta lög­reglu­mönnum líkam­legu of­beldi.

Þetta kemur fram í frétt Frétta­blaðsins.

Þar segir að hinn á­kærði sé fæddur árið 1997 og sam­kvæmt á­kæru á hann að hafa brotið gegn vald­stjórninni með því að hafa hótað lög­reglu­mönnum bæði líf­láti og líkams­meiðingum. At­vikið átti sér stað í septem­ber 2021.

Í nóvember 2021, tveimur mánuðum síðar, á maðurinn aftur að hafa hótað lög­reglu­mönnum líf­láti og líkams­meiðingum. Þá er honum einnig gefið að sök að hafa skallað lög­reglu­mann í höfuðið með þeim af­leiðingum að lög­reglu­maðurinn hlaut heila­hristing, bólgu, roða og eymsli yfir vinstri auga­brún.

Um hálfum mánuði síðar á á­kærði að hafa komist aftur í kast við lögin. Þá á hann að hafa sparkað í höfuð lög­reglu­manns með hné sínu með þeim af­leiðingum að lög­reglu­maðurinn hlaut mar á vinstri eyra.

Í janúar 2022 á á­kærði enn og aftur að hafa hótað lög­reglu­mönnum líf­láti og skallað lög­reglu­mann.

Þess er krafist að sá á­kærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakar­kostnaðar.