„Hörmungar sem kostuðu son minn lífið“

Röð mistaka í bráðamóttöku barna á Landspítalanum varð til þess að sonur Auðbjargar Reynisdóttur hjúkrunarfræðings lést að hennar raun en hún hefur skrifað bók um lát ungs sonar síns, Jóels fyrir tuttugu árum.

Banvæn mistök í íslenska heilbrigðiskerfinu er heiti bókarinnar. Í inngangi segir hún meðal annars: „Bók þessi er endapunkturinn í viðleitni minni til að stöðva maskínuna sem fór í gang 22. febrúar 2001 á bráðamóttöku barna á Landspítalanum. Hörmungar sem kostuðu son minn lífið.“

Auðbjörg sem flutti frá Íslandi ræðir um efni nýrrar bókar sinnar við Sigmund Erni í þættinum 21 í kvöld.

Hún segir stjórnendur og embættismenn ekki hafa getað sannfært sig um að lærdómur af mistökunum verði öðrum til verndar.

„Það sem þeir hafa reynt að réttlæta hefur einungis gert illt verra“, skrifar hún og að saga sonar síns, Jóels Gauts Einarssonar, sem fæddist árið 1999 og lést 2001, eigi erindi við alla þá sem tengist heilbrigðiskerfinu, starfsfólki þess, sjúklinga og aðstandendur.

Hún ræðir í þættinum um það sem hún telur ófagleg viðbrögð við alvarlegum mistökum í meðferð sjúklinga. En einnig hvernig móðir getur lifað af missi og mætt viðbrögðum kerfisins.