Hödd um mál Eiðs Smára: „Mér hreinlega blöskrar þetta meðvirknisrugl“

„Eiði er held ég enginn greiði gerður með að vera haldið í þessu ábyrgðarhlutverki á meðan hann tekst á við sitt,“ segir Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill og fyrrverandi fréttakona, í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Þar skrifaði hún um mál Eiðs Smára Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfara en tilkynnt var í fyrrakvöld að hann væri hættur törfum fyrir KSÍ. Mun ástæðan vera gleðskapur sem KSÍ bauð til eftir tap Íslands gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM á dögunum.

Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G., fór yfir atburðarásina í Norður-Makedóníu í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin. DV fjallaði um lýsingar Ríkharðs og miðað við þær gerði Eiður lítið af sér – að minnsta kosti ekki eitthvað sem ætti að kosta hann starfið.

Í pistli sínum segir Hödd að hana blöskri meðvirknin í samfélaginu og tekur strax fram að afrek hennar á knattspyrnuvellinum hafi aldrei verið mikil.

„Gefum okkur samt að ég væri heimsfræg knattspyrnustjarna sem hafi leikið með landsliði okkar Íslendinga og stórum liðum úti í heimi. Skórnir væru nú komnir á hilluna og ég tæki að mér ýmis ábyrgðastörf tengt íslenskri knattspyrnu líkt og að vera aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og væri mikils metinn álitsgjafi og spyrill í sjónvarpi um íþróttina. Sökum þess eins að ég væri mannleg burðaðist ég með bakkus í farteskinu (sem ég sjálf raunverulega geri) og ætti erfitt með að stjórna honum á köflum. Það tæki að berast fólki til eyrna að ég væri oft í annarlegu ástandi víðs vegar um bæinn. Einn daginn mætti ég svo ölvuð í beina íþróttaútsendingu í sjónvarpi og síðar hefði ég girt niður um mig og migið á Ingólfstorgi og verið svo óheppin að það atvik náðist á myndband. Ég þori nánast að hengja mig upp á það að uppsagnarbréfin hefðu verið fljót að berast mér og ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda um hvernig útreiðin í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hefði verið. Því ég er jú kvenmaður.“

Hödd bendir svo á að tekin hafi verið ákvörðun um að segja Eiði Smára upp störfum, einmitt í kjölfar drykkju í ferð með landsliðinu erlendis.

„Atvikið gerðist eftir að hann hafði fengið áminningu í starfi og hann sjálfur lýst því yfir opinberlega að hann ætlaði að gera eitthvað í sínum málum. Víðsvegar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum má í dag svo sjá meðvirkni margra landsmanna. Stjórn KSÍ og aðalþjálfari landsliðsins eru úthrópuð sem svikarar og þeim gefið að sök að hafa fellt Eið með því að áfengi var á boðstólum í ferðinni. Mér hreinlega blöskrar þetta meðvirknisrugl því miðað við það sem knattspyrnumönnum íslenska landsliðsins hefur að undanförnu verið gefið að sök þá væri allt eins hægt að gera knattspyrnusambandið ábyrgt ef leikmaður sem hefði orðið uppvís að því leggja hendur á konu sína fengi boð um að taka hana með sér á fögnuð á vegum sambandsins og gengi í skrokk á henni þar. Ofbeldisfulli eiginmaðurinn væri sá eini á svæðinu sem bæri ábyrgð á ofbeldinu og enginn annar. Það sama á við um fullorðinn einstakling sem á við áfengisvandamál að stríða og held ég í raun að Eiði hafi með uppsögninni verið greiði gerður þó líklega sjái hann það ekki þannig.“

Hödd segir að vissulega megi deila um það hvort KSÍ eigi á annað borð að draga upp kortið og bjóða á línuna í keppnisferðum. Hún tekur fram að hún þekkir Eið Smára ekkert fyrir utan að hafa spilað við hann fótbolta sjö ára gömul í Álftatúninu.

„Þeir einstaklingar sem við þekkjum sameiginlega bera honum allir virkilega vel söguna og það getur enginn sagt annað en að hann er maður sem við landmenn eigum að vera stolt af. Eiður er samt mannlegur og eftir allar þær oft réttmætu árásir sem hafa dunið á KSÍ undanfarið ætla ég að hætta mér í að lýsa yfir þeirri skoðun minni að loksins virðist sambandið ætla að standa í lappirnar, hætta meðvirkninni og taka ábyrgð. Eiði er held ég enginn greiði gerður með að vera haldið í þessu ábyrgðarhlutverki á meðan hann tekst á við sitt.“