Hlynur brotnaði saman í viðtali: Erfitt að gera sér í hugarlund sársaukann sem býr að baki

Hlynur Bæringsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í körfubolta og einn af okkar allra bestu íþróttamönnum síðustu tuttugu árin eða svo, er í viðtali í heimildarmyndinni Þögul tár sem verður aðgengileg í Sjónvarpi Símans Premium á morgun og sýnd í opinni dagskrá annað kvöld.

Myndin fjallar um sjálfsvíg á Íslandi frá ýmsum hliðum og hefur stikla úr myndinni vakið talsverða athygli á Facebook.

Í myndinni er meðal annars rætt við fólk sem hefur upplifað alvarlegar sjálfsvígshugsanir- og tilraunir og varpað ljósi á líf aðstandenda eftir að sjálfsvíg hefur átt sér stað. 

Í myndinni er meðal annars rætt við Birgittu Haukdal og Hlyn Bæringsson. Í stiklunni sem sjá má hér að neðan má sjá brot úr viðtölunum við þau og sést Hlynur meðal annars brotna saman.

„Ef fólk er í þessum hugleiðingum þá er erfitt fyrir mig eða aðra að gera sér í hugarlund hverslags sársauki er, að það sé hægt að finna það mikið til að þetta sé leiðin, að það sé betra að fara heldur en að vera,“ segir hann meðal annars.

Sigurbjörg Sara Bergsdóttir ráðgjafi stendur að myndinni sem hún ákvað að gera eftir að barnsfaðir hennar svipti sig lífi fyrir sex árum. Rætt var við hana í Morgunblaðinu um helgina og sagði Sigurbjörg meðal annars að sjálfsvígið hefði komið henni í opna skjöldu.

„Þetta var al­gjört áfall og nokkuð sem maður myndi aldrei trúa að maður myndi upp­lifa,“ sagði Sigurbjörg en maður hennar fyrrverandi, Halldór Birgir Jóhannsson, átti sér enga sögu um þunglyndi.

Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 og viðtalsþjónustu og sólarhringssíma Píeta samtakanna 552-2218 fyrir fólk sem upplifir sjálfsvígshugsanir.

Hægt er að sjá stiklu úr myndinni hér að neðan: