Hjónin þurfa að borga 3.900 krónur fyrir gistingu á hóteli í eina nótt með morgun­verði

28. maí 2020
13:53
Fréttir & pistlar

„Við hjónin fengum boð í sveita­brúð­kaup í sumar og með því til­boð í hótel­gistingu eina nótt með morgun­verði fyrir tvo á 13.900 kr.- Við ætlum að nota ferða­gjöf beggja og fáum þar með hótel­gistinguna og morgun­verðinn á 3900 kr.“

Þetta segir Guð­finnur Sigur­vins­son, fjöl­miðla­maður og vara­bæjar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins í Garða­bæ, í pistli sem birtist á vef Vísis.

Þar skrifar Guð­finnur um 5.000 króna ferða­gjöf stjórn­valda til al­mennings á Ís­landi. Guð­finnur hvetur sem flesta til að nota gjafa­bréfið, jafn­vel þó ein­hverjum kunni að þykja upp­hæðin of lítil.

„Hugsum okkur ef Kringlan byði öllum við­skipta­vinum verslunar­mið­stöðvarinnar upp á 5000 kr.- gjafa­bréf sem fólk gæti nýtt á til­teknu tíma­bili. Mis­munandi verslanir Kringlunnar væru sam­tímis með alls kyns til­boð sem hægt væri að nýta með gjafa­kortinu og á­vinningur neyt­enda þannig aukinn. Hvort væri ó­hætt að ganga út frá því í fram­haldinu að bíla­stæði Kringlunnar yrðu smekk­full eða gal­tóm?“

Guð­finnur segir að það sé viss mæli­kvarði á hag­sæld ef til er fólk sem finnst ekki taka því að inn­leysa um­ræddar fimm þúsund krónur. Þá væri enn betra ef þeir hinir sömu gætu fram­vísað gjafa­bréfi sínu til þeirra sem vilja nota það. „Ef hver og einn gæti þannig að há­marki fram­vísað 15 slíkum gjafa­bréfum í verslunum Kringlunnar, sam­tals að and­virði 75.000 krónur, þá væri verslunar­ferðin al­deilis til fjár.“

Guð­finnur segir að ferða­gjöfin sé til þess fallin að efla mörg og mis­munandi fyrir­tæki sem þrífast undir hatti ferða­þjónustunnar. „Til­gangurinn er að beina við­skiptum landans að fyrir­tækjum í ferða­þjónustu sem blæðir um þessar mundir en ekki til að ríkis­styrkja ferða­lög al­mennings upp í topp.“

Guð­finnur segir að dæmið sem hann nefnir sýni að kaup­geta þeirra hjóna aukist vegna ferða­gjafarinnar og því myndast ríkari hvati til að nota aðra ferða­þjónustu, til dæmis bað­lón á svæðinu.

„Það þarf ekki að fara langt til að gjöfin komi að gagni. Hægt er að efla ferða­þjónustu í næsta ná­grenni eða heima­byggð en ferða­gjöfina má al­mennt nýta í sam­göngur, gistingu, veitingar og af­þreyingu um allt land. Komum and­virði ferða­gjafarinnar í vinnu og verjum ís­lenska ferða­þjónustu. Í krafti fjöldans getum við stækkað ferða­gjöfina og myndað iðandi ferða­keðju upp Ár­túns­brekku, hringinn í kringum landið og aftur heim.