Hjartað slær í hannesarholti

Þau Jón G. og Sjöfn Þórðardóttir fá að venju til sín góða gesti í þáttinn Fasteignir og heimili í kvöld.

Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt hjá Basalt arkitektum og aðalhönnuður Bláa lónsins, ræðir um nýja hótelið í Bláa lóninu, sjóböðin við Húsavík og Lava Center safnið á Hellu. Basalt arkitektar fengu hönnunarverðlaun Íslands árið 2018 fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu.

\"\"

Alexander Lapas, sérfræðingur í lánadeild Landsbanka Íslands, ræðir um verðtryggð og óverðtryggð lán til íbúðakaupa og mismunandi greiðslubyrði þeirra. Tekin eru fyrir nokkur dæmi um greiðslubyrði lántakenda.

\"\"

Hannesarholtið við Grundarstíg 10 er stór hluti þáttarins í kvöld. Rætt er við Ragnheiði Jónu Jónsdóttur, staðarhaldara og eiganda hússins, um þetta fallega og reisulega hús sem tekur vel á móti gestum með breiðu faðmlagi. Rómantík fortíðar umvefur gesti og húsið hefur sérlega góða nærveru. Ragnheiður Jóna er hjartahlý  hugsjónarmanneskja og átti frumkvæðið að því varðveita þetta sögufræga hús sem var í eigu Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra Íslands, en hann lét reisa húsið árið 1915.

\"\"

Stefán Örn Stefánsson, arkitekt frá arkitektastofunni ARGOS og annar arkitektanna sem sá um og hafði yfirumsjón með endurbyggingu Hannesarholts, segir frá aðkomu sinni og vinnunni við endurbyggingu þessa sögufræga húss.

\"\"

Sjøfn Har myndlistarmaður ræðir um upplifun sína við að sýna verk sín í Hannesarholti - en hún var þar nýlega með sýningu um tveggja mánaða skeið. Sýningin bar yfirskriftina Myndirnar mínar í tuttugu og fimm ár.

Þátturinn Fasteignir og heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 20:30 á Hringbraut - og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.