Hjalti vill göng undir Öxna­dals­heiði: „Er ekki frekar hljótt um á­standið á Öxna­dals­heiði?“

25. janúar 2021
16:00
Fréttir & pistlar

„Er ekki frekar hljótt um á­standið á Öxna­dals­heiði? Þetta er tenging Akur­eyrar­svæðisins við vestan­vert landið sem er í­trekað rofin dögum saman. Nú bætist snjó­flóð við.“

Þetta segir Hjalti Jóhannes­son, land­fræðingur og sér­fræðingur í byggða­þróun við Há­skólann á Akur­eyri, á Face­book-síðunni Um­ræður um byggða­þróun.

Þrjú snjó­flóð féllu á þjóð­veg 1 um Öxna­dals­heiði um helgina og lentu nokkrir veg­far­endur í einu flóðinu. Veður á þessum slóðum á það til að vera slæmt, einkum að vetrar­lagi, og er oft ó­fært yfir heiðina þegar mikið snjóar og skefur.

Um­ræða um göng undir Öxna­dals­heiði er ekki ný af nálinni en í könnun sem unnin var fyrir Sam­göngu­fé­lagið sumarið 2019 kom fram að rúm­lega 40 prósent svar­enda vildu tíu kíló­metra veg­göng undir heiðina. Þá hefur einnig verið rætt um Trölla­skaga­göng, 15-20 kíló­metra jarð­göng, undir Trölla­skaga milli Sauð­ár­króks og Akur­eyrar.

„Raunar finnst mér rangt að tala um heiði. Þetta er fjalla­skarð gegnum Trölla­skagann í 540 m hys. og annar hæsti punkturinn á hring­veginum. Göng undir heiðina sam­kvæmt svæðis­skipu­lagi Eyja­fjarðar þurfa að komast á dag­skrá sem fyrst,“ segir Hjalti en færslan fær góðar undir­tektir.

Bene­dikt Sigurðar­son stjórn­sýslu­fræðingur segir að mikil­vægt sé að setja varan­lega vega­gerð, til dæmis með jarð­göngum undir heiðina, á dag­skrá.

„Kunningi minn sem hefur sér­þekkingu í jarð­vegs­verk­fræði telur að það komi vel til greina að gera "yfir­byggðan skurð" í gegn um heiðina - - og fara nærri gamla veg­stæðinu. Síðan mætti fram­lengja með yfir­byggingu - eins langt og þurfa þykir til að losna við ó­veðurs­skaf­renninginn - - og snjó­flóða­hættuna".“