Hjalti leið vítiskvalir og vildi niður um bekk: Strítt vegna offitu en svona er lífið í dag – 60 kíló farin

Þáttur um maga­minnkunar­að­gerðir á Hring­braut í kvöld:

Grund­firðingurinn Hjalti Allan Sverris­son man ekki eftir bernsku sinni öðru­vísi en svo að honum hafi verið strítt út af því hvað hann var feitur. Hann segist hafa liðið vítis­kvalir í æsku sakir þessa – og á endanum gekk hann inn á kontór skóla­stjóra síns og bað um að vera færður niður um bekk; hann gæti ekki lengur þolað ein­elti bekkjar­syst­kina sinna.

Hjalti Allan segir sögu sína í þættinum Allt annað líf á sjón­varps­stöðinni Hring­braut í kvöld – og ugg­laust má ætla að á­horf­endur fái sting í hjartað þegar þeir hlýða á frá­sögn hans í sam­tali við Sig­mund Erni úti í fjalla­bænum Jelenia Góra í suð­vestur­hluta Pól­lands, en þar gekkst hann undir maga­minnkunar­að­gerð fyrir nokkrum misserum, löngu orðinn úr­kula vonar um að hann gæti grennt sig ó­studdur, búinn að reyna hvern kúrinn af öðrum fram á miðjan aldur, án sýni­legs árangurs.

Svo hann lét slag standa, ætlaði í fyrstu að láta minnka magann heima á Ís­landi, en þegar hann frétti af sam­bæri­legri þjónustu í Pól­landi sann­færðist hann um að þar væri fag­fólkið að finna sem hann treysti til verksins. Á einu ári eftir að­gerðina léttist hann svo um 60 kíló, fór úr 160 kílóum niður í 100 – og sem bíl­stjóri hjá eigin ferða­þjónustu­fyrir­tæki á Snæ­fells­nesi, sem leggur á­herslu á jökla­ferðir, sá hann loksins á mæla­borðið í bílnum.

Hann býst við því að missa enn fleiri kíló ef hann stendur sig í mataræðinu næstu árin, en aðgerðin ein og sér skilar ekki árangri nema menn temji sér minni matarskammta og betra fæðuval en á offituárunum. Og það ætlar hann sér, fullyrðir hann skellibrosandi, loksins á þeim stað í lífinu að vakna grannur á morgnana.

Í þáttunum sem hefja göngu sína í kvöld er fylgst með magaminnkunaraðgerðum á kunnri klíník í fyrrnefndum fjallabæ og rætt við fleiri Íslendinga sem hafa þegið þjónustu af þessu tagi, svo sem sjúkraliðann Kristínu Sigmundsdóttur frá Hólmavík sem er tugum kílóa léttari eftir sína aðgerð – og hleypir nú upp og niður stigana á heilsugæslunni í sjávarþorpinu við Steingrímsfjörð, léttari í skrefi en nokkru sinni, að hún man eftir.

Og hún er ekki sú eina í bænum sem hefur farið í svona aðgerð, þó nokkur hópur Hólmvíkinga hefur gert slíkt hið sama og sér ekki eftir því. Og raunar er svo komið að í kringum 20 Íslendingar fara utan til Póllands þessara erinda í hverjum mánuði, slíkar eru vinsældir þessara aðgerða orðnar.

Þættirnir eru tveir og byrjar sá fyrri klukkan 20:00 í kvöld. Seinni þátturinn fer í loftið eftir rétta viku.