Hjálmar vill aldurstakmark á farsímaeign – Hvers vegna samþykkjum við þetta?

Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og varaþingmaður Framsóknarflokksins, velti því upp á Alþingi í dag hvort ekki væri kominn tími fyrir Alþingi að setja lög um að börn megi ekki eignast snjallsíma með interneti og samskiptaforritum fyrr en þau hafa náð 15 ára aldri.

„Tíu ára má barn fær eitt í sund, tólf ára hefur það rétt til að segja skoðun sína á því hvort það vill áfram vera í trúfélagi, þrettán ára má barnið vinna létt störf, fimmtán ára má barnið ráða sig til að gæta annarra barna, fimmtán ára verður barn sakhæft, fimmtán ára má barn byrja að stunda kynlíf,“ sagði Hjálmar og bætti við í þessu samhengi að sextán ára megi börn ganga í stjórnmálaflokk og átján ára fái þau kosningarétt og mega ganga í hjónaband.

„Við sem teljumst fullorðin reynum hafa vit fyrir æsku samfélagsins hverju sinni,“ sagði hann og bætti við að veröldin breyttist hratt og sjálf séum við fyrirmyndir.

„Við setjum æskunni og einstaklingum engu að síður þessar skorður en er kominn tími til að skilgreina í lögum hvenær barn má eignast snjallsíma? í stjórnarskrá Íslands stendur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Hjálmar nefndi að við setjum viðmið um orkudrykkjaneyslu barna og ungmenna vegna þess að við vitum að neysla þeirra hefur áhrif.

„En hvers vegna er í lagi, eða samþykkjum við það, að barn, t.d. 12 ára eignist síma með aðgangi að öllu því internethlaðborði, eins og samfélagsmiðla, sem þeir hafa upp á að bjóða, hvað þá tíu ára barn eða níu ára?“

Hjálmar sagði að samkvæmt lögum megi börn sem hafa náð 14 ára aldri sjá allar kvikmyndir í kvikmyndahúsum svo lengi sem þau horfa á myndina í fylgd foreldris eða forsjáraðila.

„Ættum við hér á Alþingi kannski að setja lög, að einstaklingur megi eignast snjallsíma með interneti og samskiptaforritum 15 ára? Verndun börnin okkar og ungmenni og aðstoðum foreldra að sinna sínum ábyrgðarmikla hlutverki að ala upp barn.“