Hringbraut skrifar

Hjálmar er látinn „hann var alltaf með glasið barmafullt“ - Stjórnendur Hagaskóla minnast vinsæls kennara

12. febrúar 2020
10:14
Fréttir & pistlar

Hjálmar Aðalsteinsson, íþróttakennari lést á krabbameinsdeild Landspítalans þann 25. janúar síðastliðinn. Hann hóf störf við Hagaskóla fyrir rúmlega 30 árum og átti hér farsælan starfsferil. Hann var mikill íþróttamaður og KR-ingur. Hann var á árum áður sigursæll keppnismaður í sinni aðalíþróttagrein sem var borðtennis auk þess sem hann var landsliðsþjálfari í greininni. Greint er frá andláti Hjálmars á heimasíðu Hagaskóla. Þar segir einnig að kennsla muni falla niður eftir klukkan 10:55 í dag. Á síðu skólans segir einnig:

„Hjálmar var hvers manns hugljúfi og einstaklega vel liðinn jafnt af nemendum sínum sem samstarfsfólki. Hann var góður fagmaður sem var annt um nemendur sína og lagði mikinn metnað í öll sín störf.

Glaðværð og jákvæðni voru honum eðlislæg og óhætt er að fullyrða að orðið gleðigjafi hafi átt einstaklega vel við Hjálmar. Skólasamfélagið í Hagaskóla hefur misst einstakan félaga sem er sárt saknað.“

Í Morgunblaðinu er Hjálmars minnst og farið yfir feril hans sem íþróttamanns.  Hjálm­ar kvænt­ist Mar­gréti Björns­dótt­ur 31. ág­úst 1978. Börn þeirra eru tvö. Hann æfði og þjálfaði tenn­is í mörg ár og fór meðal ann­ars sem far­ar­stjóri með ís­lenska landsliðinu í tenn­is á Smáþjóðal­eik­ana í Lúxemborg 1995.

Í kring­um 1992 hóf Hjálm­ar störf sem íþrótta- og sund­kenn­ari í Haga­skóla. Hann var virk­ur þátt­tak­andi í fé­lags­störf­um inn­an skól­ans, fór í ferðalög með nem­end­un­um og hélt ótal nám­skeið, m.a. plötusnúðanámskeið og nám­skeið í skák og kvik­mynda­gerð svo dæmi séu tek­in. Hann starfaði í Haga­skóla fram að veik­ind­um sín­um.

Bragi Leif­ur Hauks­son skrifar fyr­ir hönd Tenn­is­sam­band Íslands:

Nokkr­ir fé­lag­ar mæla sér mót í tenn­is. Veðrið er ekki upp á það besta, það er rign­ing­ar­suddi og það gust­ar. Kannski er bara best að sleppa þessu. Þá kem­ur hjólandi út úr rign­ing­unni sterk­leg­ur maður með bros á vör geislandi af lífs­gleði. Hjalli er mætt­ur, til­bú­inn í slag­inn og er ekki mikið að kippa sér upp við nátt­úru­öfl­in og hríf­ur alla með sér. Hjólið var hinn eðli­legi ferðamáti Hjalla alla tíð og var hann með alls kyns praktísk­an búnað sem nýtt­ist vel.

Hjálm­ar Kr. Aðal­steins­son var frá­bær íþróttamaður og hóf að leika tenn­is á unga aldri. Tenn­is­vell­ir voru fáir á þeim árum en Hjalli lét það ekki á sig fá og spilaði ásamt fleir­um á mal­biksvelli í Vall­ar­gerði í Kópa­vogi. Svo dug­leg­ur var hann að æfa sig að hann spændi upp nokk­ur pör af skóm á hverju sumri á mal­bik­inu. Hann hafði einkar fast­ar uppgjafir og muna fé­lag­ar hans eft­ir að þurfa að sækja tenn­is­bolt­ana inn í nær­liggj­andi garða þegar hon­um tókst vel upp. Hjalli lét kappið aldrei bera feg­urðina of­urliði og var þekkt­ur fyr­ir fal­leg­an leik og drengi­leg­an, úr­slit­in skiptu minna máli. Hann var um ára­bil einn besti tenn­is­leik­ari lands­ins. Hann var einnig frá­bær borðtenn­is­leik­ari og varð Íslands­meist­ari í þeirri grein.

Hjalli sótti nám í há­skóla í Kaup­manna­höfn þar sem hann var einn fyrsti Íslend­ing­ur­inn sem sér­hæfði sig í tenn­isþjálf­un. Hann bjó í nokk­ur ár í Kaup­manna­höfn og spilaði tenn­is bæði þar og hér heima. Þegar hann kom heim til Íslands var hann ráðinn út­breiðslu­stjóri Tenn­is­sam­bands­ins. Hann var einkar far­sæll á því sviði og fór m.a. fjölda æf­inga- og keppn­is­ferða með hópa ungra tenn­is­leik­ara til út­landa sem far­ar­stjóri og byggði upp sterk tengsl við tenn­is­fé­lög í Dan­mörku sem við njót­um enn góðs af.

Hjalli var kenn­ari af Guðs náð og var alltaf að miðla af þekk­ingu sinni og reynslu. Hann kynnti sér og miðlaði nýrri tækni í íþrótt­inni og þekkti manna best kosti og galla nýrra spaða og strengja.

Hann þjálfaði yngri landslið Íslend­inga árum sam­an og marg­ir af bestu tenn­is­leik­ur­um lands­ins hafa notið leiðsagn­ar hans.

Hjalli var um ára­tuga­skeið íþrótta­kenn­ari við Haga­skóla og þar lét hann setja lín­ur á gólf íþrótta­húss­ins og koma upp aðstöðu ut­an­dyra til tenn­isiðkun­ar. Þar sem aðrir sáu aðstöðuleysi, þar sá hann tæki­færi! Já­kvæðni hans og sterk út­geisl­un höfðu mik­il áhrif á alla í kring­um hann.

Tenn­is­sam­band Íslands stend­ur í mik­illi þakk­ar­skuld við Hjalla. Hann var ávallt stór­huga og þegar upp komu hug­mynd­ir um að byggja nýtt tenn­is­hús á Íslandi kom nafn hans ávallt upp sem ráðgjafi og hug­mynda­smiður. Hjalli var ný­verið sæmd­ur æðsta heiðurs­merki Tenn­is­sam­bands Íslands fyr­ir frá­bær störf fyr­ir tennisíþrótt­ina á Íslandi.

Við hjá Tenn­is­sam­bandi Íslands sam­hryggj­umst fjöl­skyldu Hjalla á erfiðum tím­um. Geng­inn er dreng­ur góður.

Ásta M. Urbancic skrifar F.h. Borðtenn­is­deild­ar KR

Hjálm­ar lék 29 lands­leiki fyr­ir Íslands hönd og vann eina leik Íslands í viður­eign Íslands og Kína í frægri heim­sókn kín­verskra borðtenn­ismanna til Íslands um miðjan átt­unda ára­tug síðustu ald­ar.

Hann var meðal kepp­enda í fyrsta ís­lenska landsliðinu sem sent var á heims­meist­ara­mót, sem fram fór í Birmingham á Englandi árið 1977.

Auk þess að þjálfa KR-inga var Hjálm­ar landsliðsþjálf­ari í borðtenn­is í upp­hafi 9. ára­tug­ar­ins. Þannig miðlaði hann þekk­ingu sinni og reynslu áfram til sterk­ustu leik­manna lands­ins á fyrstu ára­tug­um borðtenn­isiðkun­ar á Íslandi. Hann lauk íþrótta­kenn­ara­prófi árið 1982 og fór svo til frek­ara náms til Dan­merk­ur til að læra meira um kennslu spaðaíþrótta. Hann lagði einnig tenn­is fyr­ir sig og náði sömu­leiðis góðum ár­angri í þeirri íþrótt. Hjálm­ar hjólaði á milli staða löngu áður en það komst í tísku og var þar á und­an sinni samtíð.

Hjálm­ar lagði sig eft­ir því að læra um borðtennisíþrótt­ina til að bæta eig­in tækni og þeirra sem hann þjálfaði. Á þeim tíma var lítið um að borðtenn­is sæ­ist í sjón­varpi og sjald­gæft að ferðast væri til út­landa á borðtenn­is­mót. Hjálm­ar skoðaði því blöð með mynd­um af er­lend­um borðtenn­isköpp­um til að skoða hvernig þeir fram­kvæmdu högg­in og reyndi að teikna upp hvernig höggið skyldi fram­kvæmt. Hann tók líka ljós­mynd­ir og kvik­mynd­ir af kepp­end­um til að læra af. Hjálm­ar lagði þó ekki bara áherslu á tækn­ina og sig­ur held­ur líka heiðarleika í keppni og gat glaðst með þeim sem spiluðu vel þótt and­stæðing­ar væru.

Hjálm­ar lét sér annt um fé­laga sína og átti vini í öll­um fé­lög­um, enda já­kvæðari og lífs­glaðari maður vand­fund­inn. Hann var hrók­ur alls fagnaðar þegar borðtenn­is­fólk kom sam­an, oft­ar en ekki með glens og gamanyrði á vör. Hann var góður fé­lagi og hans verður sárt saknað. Mest­ur er þó miss­ir fjöl­skyldu hans og eru þeim færðar inni­leg­ar samúðarkveðjur.

S. Ingi­björg Jós­efs­dótt­ir, skóla­stjóri Haga­skóla fyr­ir hönd starfs­manna Haga­skóla:

Í dag kveðjum við ynd­is­leg­an vinnu­fé­laga og góðan dreng. Hjálm­ar okk­ar eða Hjalli eins og hann var oft kallaður hafði verið kenn­ari við Haga­skóla í meira en 30 ár. Hann var far­sæll í starfi, hafði góða nær­veru og var metnaðarfull­ur fyr­ir hönd skóla­starfs­ins.

Öll þau ár sem Hjálm­ar var í Haga­skóla hafa fjöl­marg­ir nem­end­ur gengið í skól­ann, nem­end­ur sem minn­ast hans með vænt­umþykju og virðingu. Hjálm­ar þekkti þá alla vel. Hann var um­hyggju­sam­ur og fylgd­ist vel með þeim eft­ir að skóla­göngu þeirra í Haga­skóla lauk.

Við sem unn­um með hon­um minn­umst hans sem gleðigjafa sem átti alltaf eitt­hvað já­kvætt og fal­legt fyr­ir hvert og eitt okk­ar. Aldrei sáum við hann skipta skapi eða verða pirraðan. Alltaf var hann til­bú­inn að gefa af sér og um­vafði okk­ur hlýj­um faðmi.

Hjalli okk­ar kunni svo sann­ar­lega að njóta lífs­ins og það var unun að hlusta á hann rifja upp hjóla­ferðir jafnt inn­an­lands sem utan. Á síðustu árum fór hann í ferðir um Evr­ópu og þegar þær sög­ur voru sagðar var ekk­ert nema gleði og gam­an rifjað upp. Stund­um fylgdi þess­um sög­um upp­lýs­ing­ar um góm­sæt­an mat og góð vín og hvatn­ing til okk­ar hlust­enda að prófa.

Starfs­manna­hóp­ur­inn hef­ur ferðast tölu­vert sam­an gegn­um árin. Alltaf var Hjalli hrók­ur alls fagnaðar og gladdi okk­ur með nær­veru sinni, hlýja bros­inu og glettn­inni sem ávallt fylgdi með.

Hjalli var traust­ur vin­ur og sam­starfs­fé­lagi sem vildi allt fyr­ir aðra gera. Í öll­um verk­efn­um í skól­an­um lét hann hlut­ina ganga upp á yf­ir­vegaðan hátt, ró­leg­ur og til­lits­sam­ur. Hann sinnti til dæm­is alltaf ákveðnum verk­efn­um við skóla­slit í 10. bekk og sá um sviðið í sal í skól­ans. Þetta voru ekki hefðbund­in verk­efni íþrótta­kenn­ara en það skipti ekki máli. Ef hann gat aðstoðað á ein­hvern hátt var hann fyrsti maður til að bjóða fram krafta sína.

Hjalli tókst á við veik­indi sín með æðru­leysi og hug­rekki og aldrei heyrðist hann kvarta. Við sáum það í des­em­ber að hann var mjög kval­inn en engu að síður vor­um við viss um að hann myndi sigr­ast á þessu verk­efni. Ekk­ert annað komst að í huga okk­ar.

Við starfs­menn Haga­skóla þökk­um Hjalla okk­ar sam­fylgd­ina. Minn­ing­arn­ar eru ein­göngu góðar, bjart­ar og fal­leg­ar og það er ljúft að rifja þær upp þó að tár­in trítli niður kinn­ar. Á sama tíma finnst okk­ur það óá­sætt­an­legt að hann fái ekki fleiri ár með fjöl­skyldu sinni og vin­um.

Við fær­um elsku Möggu hans Hjalla og fjöl­skyld­unni allri inni­leg­ar samúðarkveðjur.

Þormóður Eg­ils­son fyrrverandi knattspyrnumaður með KR skrifar:

„Þegar ég hugsa til baka þá er ég full­ur þakk­læt­is fyr­ir öll þau ár sem við Hjalli unn­um sam­an. Betri vinnu­fé­laga er ekki hægt að hugsa sér. Alltaf já­kvæður, kát­ur og til í alls kon­ar grín. Það var bara ekki hægt að vera þreytt­ur og þung­ur í kring­um hann. Hann var alltaf með glasið barma­fullt eða í versta falli hálf­fullt.

Ég á erfitt með að sætta mig við að hann komi ekki aft­ur í íþrótta­húsið að kenna með mér. Að ég sé bú­inn að kenna minn síðasta tíma með þess­um ljúf­lingi.“

Útför Hjálmars verður gerð frá Hallgrímskirkju miðvikudaginn 12. febrúar kl. 13 og mun kennsla falla niður í Hagaskóla eftir kl. 10:55 þann dag.