Hildur Sjálfstæðiskona fann ástina á Þjóðhátíð: „Ekki fylliríshátíð“

„Þjóðhátíð er ekki fylliríshátíð líkt og þorri nettrölla vill halda fram. Þjóðhátíð er menningararfur Vestmannaeyja, rík af hefðum og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna,“ segir Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, í grein á Vísi. Hún segir halla á Þjóðhátíð í umræðunni.

„Saga hátíðarinnar er samofin tónlistarsögu þjóðarinnar og uppspretta ástkærra minninga ekki bara Vestmannaeyinga heldur langflestra gesta hátíðarinnar, uppspretta fjölda vinasambanda, ástarævintýra, hjónabanda og afkomenda. Þannig kynntist undirrituð t.d. eiginmanni og barnsföður sínum á þjóðhátíðinni 1999.“

Hildur segir að margir tali illa um hátíðina: „Sukk og svínarí, græðgishátíð og jafnvel verri hlutir eru látnir flakka tengdir kynferðisafbrotum sem eru ólíðandi sama í hvaða umhverfi og á hvaða tímapunkti þau gerast. Enda eru afbrotin hvorki aðstæðum né staðsetningu um að kenna, heldur einungis afbrotamanninum sjálfum.“

Hún hvetur fólk til að gæta meðalhófs í umræðu og ákvörðunum um hátíðina. „…sem er í augum margra Eyjamanna jafn ef ekki heilagri en sjálf jólahátíðin og undirbúningur og tilhlökkun eftir því hjá ungum sem öldnum. Ég hvet jafnframt ráðamenn að gæta meðalhófs við ákvörðunartöku og stíga varlega og ígrundað til jarðar hvað varðar frelsistakmarkanir þegna landsins því þær eru ákveðin ógn í sjálfu sér.“