Hildur gefur lítið fyrir sparnaðar­ráð Sæ­vars: „Tek föður­hlut­verki mínu mjög al­var­lega“

25. janúar 2021
14:31
Fréttir & pistlar

Hildur Lillien­dahl skýtur föstum skotum að Sæ­vari Helga Braga­syni, stjörnu­fræðingi í tísti sem hún birti um helgina og gefur lítið fyrir sparnaðar­ráð hans. Annar Twitter notandi kemur Sæ­vari til varnar.

Hring­braut greindi frá því fyrir helgi hvernig Sæ­var lýsti því hvernig hann hefði náð að safna sér sau­tján milljónum króna á að­eins tveimur árum.

Í við­talinu kemur fram að Sæ­var hafi staðið á á­­kveðnum kross­­götum þegar hann var 27 ára. Hann var þá ný­skilinn við barns­­móður sína og þurfti að velja á milli þess að fara á rán­­dýran leigu­­markaðinn eða flytja aftur heim til for­eldra sinna.

Sæ­var valdi skyn­­samari kostinn og flutti heim til for­eldra sinna, enda vissi hann sem var að hann myndi lenda í vand­ræðum með að láta enda ná saman ef hann færi út á leigu­­markaðinn.

Hann á­kvað því að vinna eins og skepna, ef svo má segja, og má færa rök fyrir því að hann hafi verið í 200% vinnu um tíma, enda vaknaði hann sjö á morgnana og kom heim seint á kvöldin. Vann hann meðal annars við kennslu auk þess að sinna verk­efnum og fyrir­­­lestrum. Tveimur árum síðar var hann kominn með 17 milljónir í vasann.

Sjá einnig: Sæ­var með besta sparnaðar­ráðið: Endaði með 17 milljónir í vasanum eftir tvö ár

Sakar Helga um van­rækslu

Hildur gefur lítið fyrir frá­sögn Sæ­vars í tísti þar sem hún minnist ekki á hann með nafni, en nokkuð aug­ljóst er að hún er að vísa til hans.

„Ég var að lesa sparnaðar­ráð á inter­netinu,“ skrifar Hildur og heldur á­fram: „Kemur í ljós að ef þú flytur inn á annað fólk og lætur það um að sjá um öll inn­kaup og borga alla reikninga og van­rækir svo barnið þitt til að geta unnið 200% vinnu, þá geturðu safnað mörgum milljónum. Easy.“

Efna­fræðingurinn Einar Frið­riks­son kemur Sæ­vari til varnar á sama sam­fé­lags­miðli. „Ef ein­hver flytur 27 ára heim í for­eldra­hús og segir svo frá því í út­varps­við­tali þá er hún/hann kannski bara alls ekkert að segja að allir aðrir geti gert það eða eigi að gera það og kannski bara ó­sann­gjarnt að ráðast á við­komandi og á­saka um alls konar.“

Sæ­var svarar auk þess Evu Björk nokkurri. Segir hann að um sé að ræða kjaft­æði, sem haldið sé á lofti án þess að þekking sé til staðar á allri sögunni. Eva segist þá vita mörg dæmi um það að feður kúpli sig út úr upp­eldi barna sinna.

„Já, örugg­lega,“ svarar Sæ­var henni. „En vin­sam­legast ekki saka mig um það þar sem það er ein­fald­lega bull. Tek mínu föður­hlut­verki mjög al­var­lega. Sækist eftir því að verja sem mestum tíma með syni mínum. Sem betur fer erum við móðir hans dug­leg að hjálpa hvort öðru í upp­eldinu og alltaf til staðar.“