Hildur fékk annað bréf: „Óþolandi helvítis helvíti“

Hildur Lillendahl Viggósdóttir, aktívisti og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að hún hafi fengið annað bréf um að sýnatöku hennar hafi verið klúðrað.

Hildur greindi frá því á Twitter í lok júní að hún hafi greinst með staðbundið leghálskrabbamein tvítug. „Fékk aftur frumubreytingar tæplega þrítug og fór í keiluskurð nr. 2. Beið í þrjá mánuði sl. áramót eftir tíma hjá lækni til sýnatöku,“ segir hún. „Fjórum mánuðum eftir þann tíma fékk ég bréf um að sýnið væri ónýtt og ég ætti að fara aftur í sýnatöku innan þriggja mánaða FRÁ SÍÐUSTU SÝNATÖKU.“

Hildur er ekki sátt: „Rétt að taka fram að því bréfi fylgdi því miður engin tímavél svo ég gat ekki orðið við því. Fór aftur eins hratt og ég gat og minn góði læknir merkti sýnið mitt í algjöran forgang vegna fyrri sögu en ég hef samt ekki nokkra einustu hugmynd um hvort eða hvenær niðurstöður gætu mögulega borist eða hvað gæti verið að grassera í leghálsinum mínum eða víðar meðan ég bíð,“ segir hún.

„ÞETTA ER ÓÞOLANDI HELVÍTIS HELVÍTI OG HVENÆR ÆTLUM VIÐ AÐ TAKA HEILSU KVENNA ALVARLEGA EF EKKI MEÐ SVASVA SEM HEILBRIGÐISRÁÐHERRA? BARA ALDREI? End tryllingskast sem ég hef verið að fresta að taka opinberlega af því að allskonar annað sjittdraslálag á konum.“

Hún segir svo í dag að hún hafi fengið annað bréf: „Og nú, einum og hálfum mánuði eftir seinni sýnatöku, senda þau mér nýtt bréf með þeim skilaboðum að þau KLÚÐRUÐU SÝNINU AFTUR.“