Hildibrand hótelið í austasta firði landsins

Hákon Hildibrand, frumkvöðull, menningarfrömuður og dragdrottning, ásamt eiginmanni sínum Hafsteini Hafsteinssyni, myndlistarmanni og rithöfundi eru eigendur Hildibrands hótelsins í Neskaupstað auk þess sem þeir eiga og reka Beituskúrinn sem frægur er fyrir hið blómlega menningarlíf og matarupplifanir sem enginn stenst. Þeir Hákon og Hafsteinn hafa lyft menningarlífi staðarins upp á hærra plan og aukið framboð og möguleika ferðamanna á gistingu, afþreyingu og upplifunum ef svo má að orðið komast.

M&H Hildibrand hótel 1.jpeg

Hjónin reka Hildibrand hótel og á sumrin einnig The Cliff Hotel sem er heimavist Verkmenntaskóla Austurlands á veturna þar sem þeir halda úti mötuneyti skólans. Sjöfn Þórðar heimsækir Hákon á Hótel Hildibrand í þættinum Matur og Heimili í kvöld og fær innsýn í sögu hússins, tilurð þess að þeir fóru út í hótelrekstur svo fátt sé nefnt. „Svo rekum við hérna smá bóndabæ inni í sveit, þaðan sem ég er ættaður. Við erum að rækta þar grænmeti og lambakjöt og ýmislegt og bjóðum uppá á hótelinu,“ segir Hákon sem viðurkennir að hafa í nægu að snúast. „Ég myndi segja að ég væri með puttana í mörgu.“

M&H Hildibrand hótel 5.jpeg

Byggt af langafa Hákonar

Hildibrand hótel er gestrisið fjölskyldurekið fyrirtæki þar sem persónuleg þjónusta er í forgrunni. „Byggingin var byggð af langafa mínum á fjórða áratug síðustu aldar sem verslunarhús bæjarins. Árið 2014 opnaði það aftur sem Hildibrand hótel eftir fulla endurgerð,“ segir Hákon og bætir því við að hann hafi flutt aftur í Neskaupsstað til að breyta þessu húsi í hótel. Hér er um að ræða íbúðahótel er staðsett í austasta firði Íslands, Neskaupstað, en það býður upp á nútímalegar skandinavískar innréttingar og víðáttumikið fjarðarútsýni frá svölunum. Meira um innlit Sjafnar til Hákons á Hildibrand hótelið í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld.

Þátturinn er frum­sýndur kl. 19.00 í kvöld og fyrsta endur­sýning er kl. 21.00.