Hildi brugðið: Tölvu­pósturinn birtist á vef­síðu bæjarins

„Undir­ritaðri kom það í opna skjöldu við lestur fundar­gerðar bæjar­ráðs að tölvu­póstur sem ég sendi per­sónu­lega á bæjar­stjóra í byrjun nóvember var gerður að opin­beru fylgi­skjali á vef­síðu sveitar­fé­lagsins að mér for­spurðri,“ segir Hildur Sól­veig Sigurðar­dóttir, bæjar­full­trúi og odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Vest­manna­eyjum, í pistli á vef Eyja­frétta.

í pistlinum sakar hún bæjarráð um trúnaðarbrest með því að birta tölvupóst sem hún sendi Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja, að henni forðspurðri.

Engin hernaðarleyndarmál

Hildur segir að í tölvu­póstinum hafi ekki verið að finna nein hernaðar­leyndar­málið, heldur ein­fald­lega beiðni eftir upp­lýsingum um kostnað vegna stöðu­gilda, for­sendum á­kvörðunar­töku vegna ráðninga­mála og upp­lýsingum um upp­hæðir vegna hag­ræðinga. Hildur segir að fróð­legt hefði verið að fá svör við þessu en svo virðist sem bæjar­ráð telji að þær upp­lýsingar eigi ekki erindi við al­menning.

„Þessi vinnu­brögð bæjar­ráðs koma í kjöl­farið á því að undir­rituð bókaði af­gerandi á síðasta bæjar­stjórnar­fundi um hversu mikið hefur hægt á upp­lýsinga­flæði til kjörinna full­trúa eftir að þeim var gert að beina öllum fyrir­spurnum sínum til bæjar­stjóra, pólitískt kjörins em­bættis­manns, en ekki til annarra ó­háðra starfs­manna sveitar­fé­lagsins. Slíkt lengir boð­leiðir enda bæjar­stjóri væntan­lega einn upp­teknasti starfs­maður sveitar­fé­lagsins,“ segir Hildur í grein sinni.

Minna traust

Hún segir að þau vinnu­brögð sem bæjar­ráð sýndi af sér með birtingu þessa tölvu­póstar í leyfis­leysi séu til þess fallin að valda veru­lega skertu trausti á sam­skiptum og trúnaði kjörinna full­trúa við æðsta em­bættis­mann sveitar­fé­lagsins.

„Sam­skiptum og trúnaði sem hafa haldið vel hingað til í málum sem snúa að miklum hags­munum sam­fé­lagsins og hafa ein­kennt um­ræður og á­kvarðana­töku vegna t.d. sam­göngu­mála og heil­brigðis­mála. Héðan í frá mun undir­rituð þó þurfa að muna að öll mín fram­tíðar­sam­skipti við bæjar­stjóra í gegnum tölvu­póst munu hugsan­lega verða birt opin­ber­lega án þess að ég hafi svo mikið sem and­mæla­rétt.“

Hildur segir enn fremur að ekki áður á kjör­tíma­bilinu hafi fyrir­spurnir annarra kjörinna full­trúa verið opin­beraðar með sama hætti.

„Nú­verandi meiri­hluti bæjar­stjórnar boðaði í að­draganda kosninga aukið gegn­sæi en það gegn­sæi virðist vera val­kvætt. Það er í lagi að birta fyrir­spurnir á­kveðinna bæjar­full­trúa en ekki allra. Það eru bara birtar fyrir­spurnir en ekki svör. Í öðrum lið á sama fundi bæjar­ráðs var tekið fyrir erindi frá PWC þar sem óskað var eftir því að bréf frá þeim yrði tekið til efnis­legrar um­ræðu og að því yrði svarað, samt er hvorki það bréf né svar gert opin­bert þó óskað hafi verið sér­stak­lega eftir að efni þess væri rætt í bæjar­ráði. Af hverju skyldi það vera?“

Pistil Hildar má lesa í heild sinni hér.