Hetjudáð Snorra í Field's: „Það var blóð alls staðar“

„Einhver átti að hafa hugrekki og styrk til að gera þetta,“ segir Snorri Þrastarson sem kom fólki til bjargar í verslunarmiðstöðinni Field's á sunnudag, þegar ungur maður framdi skotárás, varð þremur að bana og særði fleiri. Lýsingarnar í fréttinni er ef til vill ekki fyrir viðkvæma.

Snorri Þrastarson er Íslendingur sem er búsettur í Svíþjóð og starfar í Danmörku. Fjölskyldan hans hefur rekið KFC í Danmörku um árabil, og þar starfar hann til að mynda við innkaup og starfsmannamál, en á sunnudaginn var hann staddur í útibúi staðarins í verslunarmiðstöðinni Field's. Fréttablaðið greindi frá.

„Þetta átti að bara að vera venjulegur dagur í KFC,“ segir Snorri. Hann bendir á að búist hafi verið við miklum viðskiptum vegna tónleika poppstjörnunnar Harry Styles sem áttu að fara fram í nágrenninu og segir ekki ólíklegt að skotmaðurinn hafi ákveðið að fremja verknaðinn vegna þess.

Skyndilega segist hann hafa heyrt hvell, sem svipaði til blöðru að springa, en var þó talsvert hærra. Í kjölfarið fylgdu fleiri slíkir hvellir

„Þá byrjar fólk að öskra og hlaupa og ég fatta að það er eitthvað á seyði,“ segir Snorri sem segir fólk hafa hlaupið inn í eldhús og skrifstofur KFC-staðarins, en hann telur að fimmtíu til sextíu manns hafi falið sig þar. „Þetta var fólk sem var skíthrætt, dauðhrætt, grátandi og nötrandi,“

Snorri segist hafa séð fram á að hann þyrfti að taka málin í sínar eigin hendur, og þóttist vita að einhver fjöldi fólks væri enn þá á göngum verslunarmiðstöðvarinnar. Því ákvað hann að fara á stúfana og reyna að koma því fólki til bjargar.

„Maður sá það í augunum á fólkinu að það var að leita að einhverjum til að bjarga sér,“ segir hann um eldra fólk sem var ekki vel falið og Snorri kom í öruggt skjól.

Þá segist hann hafa komið að móður sem var ásamt þremur börnum sínum, sem voru á aldrinum tólf til sextán ára. Hann segir að þau hafi verið alveg frosin af hræðslu og sama hvað hann hafi reynt hafi honum ekki tekist að koma þeim á betri stað.

Snorri fór á frekara flakk og heyrði „villimannsóp“. Hann var staddur á þriðju hæð miðstöðvarinnar og heyrði einhvern kalla til sín: „Hann er á leiðinni,“ Þá dreif hann sig aftur í eldhúsið, en ákvað að staðsetja sig þannig að hann sæi út, en hann myndi sjálfur ekki sjást.

„Þá sé ég kallinn koma upp. Hann er með heljarmikinn riffill, sem lýtur út eins og eitthvað sem maður notar í veiðum. Hann var sallarólegur og sveimaði um og labbaði bara í burtu,“ segir Snorri sem áttaði sig á því að skotmaðurinn stefndi í átt að móðurinni með börnin sín, en segir ljóst að hann hafi ekki séð þau. „Sem betur fer ekki, þá hefði getað farið enn verr,“

Einhverju síðar fór Snorri ásamt fjórum öðrum á flakk um verslunarmiðstöðina. „Þetta er mikið kaós þarna. Það er búið að skilja eftir barnavagna, búið að gjöreyðileggja svæðið. [...] Það var blóð alls staðar,“ segir hann.

Þeir sáu konu sem lá við botn rúllustigans sem verkjaði í bakið og þá „var stórt stykki af lærinu sem vantaði og blóð pumpaðist út.“ Snorri segir að það hafi legið fyrir að hún hafi orðið fyrir skoti.

„Nálægt var önnur stelpa, líklega fimmtán til tuttugu ára, sem lá hreyfingarlaus í mjög ónáttúrulegri stellingu. Við reyndum að skoða hvort hún væri með hjartslátt, en svo var ekki. Hún var bara dáin,“

Frásögn Snorra í heild sinni má lesa á Fréttablaðinu.

Fleiri fréttir