Hertum að­gerðum af­létt á Vest­fjörðum: „Allir þurfa að halda á­fram að vera á varð­bergi“

Hertum að­gerðum, sem hafa verið í gildi á norðan­verðum Vest­fjörðum var af­létt í dag en ekkert smit hefur greinst á Vest­fjörðum frá 27. apríl síðast­liðnum og á­kvað því að­gerðar­stjórn al­manna­varna á Vest­fjörðum, í sam­ráði við sótt­varna­lækni, að af­létta að­gerðunum.

„Nú eru allir Vest­firðir komnir á sama stað og landið allt, hvað varðar tak­markanir til að hefta út­breiðslu co­vid­smits,“ segir í færslu lög­reglunnar á Vest­fjörðum á Face­book.

Hertar að­gerðir, þar sem sam­komu­bann miðast meðal annars við fimm manns, hafa verið í gildi frá 1. apríl síðast­liðnum á Ísa­firði, Hnífs­dal og Bolungar­vík.

„Við viljum þó minna á að allir þurfa að halda á­fram að vera á varð­bergi þannig að ekkert bak­slag verði í þessari góðu þróun hjá okkur,“ segir enn fremur í færslunni og er þar vitnað í hinn svo­kallaða sam­fé­lags­sátt­mála.

Tilslakanir á samkomubanni hér á landi hófust 4. maí síðasliðinn og er stefnt á að fara hraðar í afléttingar þar sem faraldurinn er á niðurleið en engin ný smit hafa greinst síðustu fjóra daga og eru virk smit á landinu aðeins 18 talsins.

Í færslu sem lög­reglan birti síðast­liðinn föstu­dag kemur fram að þrátt fyrir að far­aldurinn hafi komið harka­lega niður á Vest­firðingum hafi ein­staklingar, fyrir­tæki og stofnanir staðið sig vel í ljósi stöðunnar. „Svo virðist sem þetta hafi allt tekist með út­sjónar­semi og sam­stilltu á­taki. Fyrir þetta ber að þakka.“