Hertu skrúfurnar reglulega

Það var sennilega ekki fyrr en Svíar opnuðu búðir sínar miklar á Íslandi að landsmenn á klakanum kalda áttugu sig á því að það sem er fest þarf að herða reglulega. Og þannig er því farið með skrúfur sem herða sig inn í viðinn, félagi IKEA steig fram og boðaðið þjóðráðið; herðið skrúfurnar reglulega. Og Íslendingar, sem taka jafnan öllu bókstaflega, eru ennþá að herða skrúfurnar í IKEA-húsgögnunum sínum en gleyma öllum öðrum skrúfum á heimilinu af því enginn hefur sagt þeim að herða þær. Gott og vel; hér kemur þá herhvötin; herðið t.d. líka skrúfurnar sem halda stormjárnunum í opnanlegum fögum glugganna á sínum stað. Þær eins og annað vilja gefa eftir með tímanum því allur vindur og viður er lifandi. Og af því það hefur ekki verið neitt sérstaklega lygnt á landinu bláa þennan veturinn er upplagt að hafa þetta í huga. Eins á við um aðrar skrúfur sem halda föstu því sem er hreyfanlegast á heimilinu, t.d. skrúfum í lyklahúsi hurðanna og lömum þeirra öllum, að ekki sé talað um hurðirnar í bað- og eldhúsinnréttingunum. Já, takið ykkur tak og herðið ykkur upp, svo og allt í kringum ykkur.