Herra Hnetu­smjör nóg boðið: „Þurfum að sýna ríkis­stjórninni að við erum komin með nóg“

„Jæja. Hve­nær ætlum við að hætta að láta vaða yfir okkur?“ spyr rapparinn Árni Páll Árna­son, betur þekktur sem Herra Hnetu­smjör á Insta­gram síðu sinni. Ljóst er að kappinn er kominn með nóg vegna þess sem hann kallar að­gerða­leysi ríkis­stjórnarinnar á landa­mærunum.

Þar birtir rapparinn meðal annars skjá­skot af frétt RÚV þar sem kemur fram að byrjað sé að hleypa far­þegum utan Schen­gen svæðisins inn í landið. Á eftir þeirri mynd birtir hann yfir­lit af þeim tak­mörkunum sem Ís­lendingar lifa nú við.

Líkt og er al­kunna mega nú að­eins tíu koma saman. Þá eru barir og skemmti­staðir lokaðir auk líkams­ræktar­stöðva og sund­staða. Nú­verandi tak­markanir eru í gildi til 15. apríl en ekkert hefur verið gefið upp um það hvort að til af­léttinga komi við það til­efni.

„Við þurfum að sýna ríkis­stjórninni að við erum komin með nóg. Nóg af því að vera sett í annað sæti. Nóg af því að mega ekki hitta ást­vini. Nóg af því að mega ekki stunda nám eða vinnu. Allt á meðan landa­mærin eru opnuð enn meir,“ skrifar rapparinn.

Hann segist ekki hafa við neinu að bæta við mál sitt við Vísi. Þá óskar hann eftir til­lögum frá fylgj­endum sínum á Insta­gram að því hvað hann eigi að gera og spyr:„Mót­mæli? Hætta að hlýða? Brenna allt? Opinn fyrir öllu.“