Herra Hnetu­smjör ætlar að koma sem flestum Kópa­vogs­búum í nýtt tón­listar­mynd­band

Tón­listar­maðurinn sí­vin­sæli Herra Hnetu­smjör greinir frá því að hann stefni á að taka upp nýtt tón­lista­mynd­band á næstunni en hann var í dag valinn Bæjar­lista­maður Kópa­vogs á 65 ára af­mæli Kópa­vogs­bæjar.

„Það er alveg geggjað að fá þessa viður­kenningu frá Kópa­vogs­bæ eftir að hafa lagt alla þessa vinnu inn, þetta er því­líkur heiður og ég er gríðar­lega þakk­látur,“ segir Herra Hnetu­smjör um valið en til­kynnt var um valið í gamla skólanum hans, Vatns­enda­skóla.

Herra Hnetu­smjör hefur vakið mikla at­hygli frá því að hann steig fram sem tón­listar­maður árið 2014 og í textum hans má oft finna skír­skotun til Kópa­vogs­bæjar þar sem hann býr. „Ég þakka kær­lega fyrir stuðninginn frá Kópa­vogs­búum gegnum árin og þakka Kópa­vogs­bæ fyrir viður­kenninguna.“

„Ég ætla að skjóta tón­listar­mynd­band um allan Kópa­vog á stöðum sem hafa mótað mig. Mig langar líka að koma sem flestum Kópa­vogs­búum í mynd­bandið en ég mun fara nánar út í þetta verk­efni þegar þar að kemur.“

Hann gaf ekki frekari upp­lýsingar um hvaða lag tón­listar­mynd­bandið yrði við en hann vinnur nú að nýrri plötu sem búist er við að líti dagsins ljós fyrir lok árs.

Herra Hnetusmjör er Bæjartónlistamaður Kópavogs 2020.