Hermann var sendur til Danmerkur því hann þótti óþekkur – Stýrir í dag 174 milljarða fyrirtæki

„Móðir mín sendi mig í heimavistarskóla í Danmörku þegar ég var 14 ára. Ég bjó á Akureyri með fjölskyldunni en mömmu þótti ég ódæll.“

Þetta segir Hermann Haraldsson, forstjóri netverslunarinnar Boozt.com, í mjög svo áhugaverðu viðtali í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag.

Þeir sem hafa átt leið um miðborg Reykjavíkur – sumir hverjir að minnsta kosti – hafa vafalítið tekið eftir auglýsingum þess efnis að Boozt.com sé komin til Íslands. Um er að ræða stærstu netverslun Norðurlandanna sem metin er á 174 milljarða króna, en netverslunin selur meðal annars tískufatnað og heimilisbúnað.

Hermann tók þátt í að stofna fyrirtækið fyrir ellefu árum og er í dag forstjóri þess. Netverslunin hóf að selja vörur til Íslands fyrir hálfum mánuði og segir Hermann að um sé að ræða mesta vöruúrval sem til er á Íslandi, en sendingarkostnaður er 1.500 krónur.

Hermann hefur lengst af dvalið í Danmörku en sagan af því hvernig hann settist þar að er nokkuð áhugaverð.

„Móðir mín sendi mig í heimavistarskóla í Danmörku þegar ég var 14 ára. Ég bjó á Akureyri með fjölskyldunni en mömmu þótti ég ódæll. Frænka mömmu var gift skólastjóra heimavistarskólans. Hann hvatti hana til að senda mig til sín í eitt ár. Þar átti ég að læra aga og snúa heim eftir eitt skólaár. Hringt var í mig í maí eftir fyrsta skólaveturinn og spurt hvort ég vildi ekki koma heim. Danmörk er besti staður í heimi á sumrin og því langaði mig að vera eitt ár í viðbót. Sama símtal fékk ég ár eftir ár í nokkur ár. Ég sagðist alltaf ætla að vera eitt ár í viðbót því mér leið svo vel í Danmörku,“ segir Hermann meðal annars í viðtalinu.

Eftir menntaskólann ákvað hann að sækja um nám í lögfræði við Háskóla Íslands og komst inn en ákvað þess í stað að leggja stund á viðskiptafræði við Copenhagen Business School.

Ég ætlaði um tíma alltaf að flytja heim en svo giftist ég danskri konu og eignaðist börn. Ég hef því búið í Danmörku frá árinu 1980 eða 41 ár. Öll ættin mín býr á Íslandi. Ég er sá eini sem býr hér,“ segir Hermann meðal annars í viðtalinu.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.