Hermann hjólar í Loga vegna milljarðamæringa: „Hverjum er ekki sama?“

Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1 og núverandi forstjóri Kemi, er ósáttur við málflutning Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.

Hermann gerir þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og segir mikla fátækt vera í orðum formannsins.

Hermann greinir ekki nákvæmlega frá því í hvað hann er nákvæmlega að vísa, en líklegt verður að teljast að hann sé að vísa í ræðu Loga í eldhúsdagsumræðum á Alþingi á mánudag.

Í ræðu sinni varð Loga tíðrætt um að bilið á milli almennings og fárra auðjöfra væri að aukast í þeirri kreppu sem er yfirvofandi. Sagði Logi að eitt af markmiðum Samfylkingarinnar væri að ráðast gegn hverskonar ójöfnuði í samfélaginu.

Hermann gefur lítið fyrir málflutning Loga og segir það vera sérstakt keppikefli hjá honum að reyna að fá fólk til að verða óánægt með sjálfan sig og sín kjör.

„Hverjum er ekki sama hvort að Jeff Bezos er 100 milljarða virði eða 500 milljarða? Á okkur hinum að líða verr með okkar stöðu ef að hlutabréfin í Amazon hækka á markaði? Þetta er aumur málflutningur og eingöngu til þess fallinn að ala á neikvæðni og öfund,“ segir Hermann sem segir Ísland eitt allra besta land heims, með hæstu launin og mestu lífsgæðin. Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er næstríkasti maður heims samkvæmt tölum Forbes. Eru eignir hans metnar á 185,8 milljarða Bandaríkjadala.

„Hvergi er meira öryggi og hvergi meira jafnrétt. Lítum til þess sem skiptir okkur máli en látum víðáttu vitleysuna eiga sig, það bætir ekki kjör nokkurs manns,“ segir Hermann.