Herbert hrærður eftir símtalið: „Ég er bara að ná til krakkanna og finnst það æðislegur heiður“

Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson er í uppáhaldi hjá mörgum og þó hann sé að komast af léttasta skeiði hefur hann aldrei skemmt á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það mun þó breytast í sumar.

Herbert segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hann hafi aldrei verið á Þjóðhátíð, hvorki til að skemmta sér né til að skemmta öðrum. Herbert hefur þó fengið boð um að halda uppi stuðinu ásamt öðrum frábærum tónlistarmönnum.

„Mér finnst þetta rosa heiður. Það verður nú að segjast eins og er. Ég er á sunnudeginum á undan Brekkusöngnum þannig að það er bara heiðurinn ógurlegi,“ segir Herbert sem er tengdur Eyjum eins og svo margir Íslendingar. Hann var á sjó þar og á bræður í Vestmannaeyjum svo eitthvað sé nefnt.

Aðspurður hvort hann hafi bara fengið símtal frá Þjóðhátíðarnefnd og hann beðinn um að spila segir Herbert að það hafi verið nokkurn veginn þannig.

Herbert hefur verið vinsæll í gegnum tíðina og hann virðist alltaf ná til fólks með slögurum sínum. Lagið Með stjörnunum var vinsælt í fyrra og það hefur verið meðbyr með Hebba að undanförnu.

„Ég er búinn að vera svo mikið að skemmta krökkunum í fjölbrautaskólunum og menntaskólunum. Ég var á árshátíð Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum um daginn, sextán til nítján ára krakkar. Ég er að skemmta í tvítugsafmælum. Ég er bara að ná til krakkanna og finnst það æðislegur heiður,“ segir Herbert.