Hent út á götu rétt fyrir jól: Staðan hér á landi til skammar

„Það er til háborinnar skammar að reglusamur einstaklingur í tveimur vinnum geti ekki fundið húsnæði í einu ríkasta þjóðfélagi í heimi.“

Svo segir í frásögn leigjanda sem birtist á Facebook-síðunni Samtök leigjenda á Íslandi. Þar hafa verið birtar nafnlausar sögur leigjenda að undanförnu og er óhætt að segja að sumar þeirra séu átakanlegar. Í frásögninni sem birtist í dag segir umræddur leigjandi frá því að hann sé nú heimilislaus rétt fyrir jól.

„Ég hef verið að leigja á sama stað í 1 og hálft ár. Ég bjó áður erlendis og eignaðist tvo hunda þar, sem ég var að flytja til landsins fyrir nokkrum vikum síðan. Ég var búin að fá leyfi frá leigusala fyrir rúmum sex mánuðum, að ég mætti vera með hundana mína hér. Svo viku eftir að þeir eru komnir til landsins og enn þá í einangrun lætur hann mig vita að sér hafi snúist hugur. Og ekki nóg með það heldur ákvað hann að henda mér út þar sem meðleigjandi minn er að fara núna um mánaðamótin og hann vill geta hafið endurbætur á íbúðinni strax.“

Í sögunni kemur fram að viðkomandi sé ekki á leigusamningnum, aðeins meðleigjandinn, og því horfi hann fram á að verða heimilislaus rétt fyrir jól með tvo hunda.

„Það er martröð að reyna að finna íbúð sem leyfir dýr, ég er í tveimur vinnum og hef samt ekki efni á stúdíóíbúð fyrir mig í borginni. Ég er ekki með bílpróf og get ekki flutt í útjaðar borgarinnar. Ég eyði hverju einasta kvöldi grátandi í kvíðakasti flettandi í gegnum allar leigusíðurnar. Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem ég yrði heimilislaus hér heldur. Það er til háborinnar skammar að reglusamur einstaklingur í tveimur vinnum geti ekki fundið húsnæði í einu ríkasta þjóðfélagi í heimi.“