Helgi Seljan furðar sig á Kristrúnu Frostadóttur: „Afpöntum tissjúið“

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður, sakaði Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um samantekin ráð til að gera lítið úr henni sem jafnaðarmanni með því að nefna hana í umfjöllunum í rannsóknir á kaupaukum Kviku banka og spyrja formann Samfylkingarinnar út í störf hennar þar.

„Samantekin ráð virðast nú vera hjá Mogganum og Viðskiptablaðinu að gefast upp á að ræða um mína pólitík á efnislegum grunni og reyna nú bara að keyra konuna niður með smjörklípum, óhróðri og gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum mínum,“ sagði Kristrún í harðri yfirlýsingu á samfélagsmiðlum í gær.

Margir hafa tekið þessi ummæli óstinnt upp þar á meðal blaðamenn á Viðskiptablaðinu. Andrea Sigurðardóttir segir á Twitter:

„Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um starfsumhverfi fjölmiðla. Er þetta það sem koma skal, að fyrirspurnir fjölmiðla sé ekki svarað og þeim svo gerðar upp einhverjar annarlegar hvatir þegar fjallað er um fjárfestingar stjórnmálamanns?,“ segir hún og bætir við: „Í umfjölluninni er fjallað um fjárfestingu hennar, sem er varla að fara í manninn þegar þú ert í pólitík. Hvers vegna ekki bara að svara efnislega og sleppa því að ráðast að fjölmiðlunum? Talandi um að fara í manninn en ekki boltann - hér er enginn sem gerir slíkt nema KF.“

Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan segir svo: „Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna Kristrún Frostadóttir svaraði ekki bara fyrirspurn blaðamanns, vegna fyrstu fréttar af þessum hlutabréfaviðskiptum hennar og annarra toppa Kviku banka.“

Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar og fyrrverandi stjörnublaðamaður Stundarinnar, segir: „Samfylkingin í sókn og félagshyggjustjórn að verða raunhæfur möguleiki. Valhöll, Mogginn og útgerðarauðvaldið að fara á taugum. Það þýðir bara eitt: nú verður allt reynt til að grafa undan Samfylkingunni og Kristrúnu Frostadóttur. Staðfesting á því að við erum á réttri leið.“

Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, svarar honum og segir:

„Áður var JPJ einn albesti blaðamaður landsins. Fyrir tæpum fjórum árum þurfti hann og Stundin að þola atvinnuróg og óréttlátt lögbann á fréttir sem áttu fullkomið erindi til almennings. Í ljósi þess hryggir það mig að hann telji aðra blaðamenn „reyna allt til að grafa undan“ S.“

Helgi Seljan segir um þetta svar:

„Það þarf nú samt engin að gráta þó JPJ lýsi þeirri skoðun sinni að Mogginn sé ekki sérlega svag fyrir Samfylkingunni. Afpöntum tissjúið.“