Helgi Seljan: Einkaspæjari Samherja heimsótti bókaútgefanda

Einkaspæjari á vegum Samherja heimsótti bókaútgefanda bókarinnar Ekkert að fela sem Helgi Seljan, Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson skrifuðu í tengslum við Samherjamálið í Namibíu árið 2019. Þetta kom fram í máli Helga á Norrænu málþingi um fjölmiðlafrelsi sem haldið var í gær.

Helgi fór yfir reynslu sína af viðbrögðum Samherja við fréttaflutningi Kveiks og Stundarinnar um meinta mútustarfsemi í Namibíu árið 2019. Þá lýsti hann hvernig skæruliðasveitin svokallaða starfaði við að reyna að draga úr trúverðugleika blaðamanna í stað þess að fyrirtækið svaraði einfaldlega spurningum sem að því var beint. Þá sagði Helgi að bókaútgefandinn hefði fengið heimsókn.

„Bókaútgefandinn sem gaf út bókina okkar um Samherjamálið árið 2019 fékk heimsókn frá einkaspæjara Samherja sem hótaði að gera okkur alla gjaldþrota með dýrum málshöfðunum erlendis ef bókin okkar yrði ekki tekin úr sölu úr öllum fyrir jólin,“ sagði Helgi.

Bókin var gefin út af Forlaginu.

„Þegar bókaútgefandinn hafnaði þessu þar sem engin ástæða var til að grípa til slíkra aðgerða, auk þess sem hann fékk engin rök fyrir því að ráðast í slíkar aðgerðir, fór forstjóri Samherja á stúfana og sendi lögmenn til að senda útgefandanum hótunarbréf einum degi fyrir jól.“