Helgi Seljan: 45 létust í gær – „Við getum auðveldlega boðið fram aðstoð“

Fjölmiðlamanninum Helga Seljan er umhugað um velferð íbúa í Namibíu eftir uppljóstranir sem tengjast starfsemi Samherja í landinu.

Í færslu á Facebook-síðu sinni bendir hann á að í sunnanverðri Afríku hafa nú 70 þúsund manns látist úr COVID-19, flestir í Suður-Afríku. Þá hefur veiran sótt verulega í sig veðrið í Namibíu.

„Þriðja bylgja Covid skall á Namibíu fyrir rúmum mánuði. Hún hefur þegar kostað nokkur hundruð mannslíf. Alls hafa 1224 látist af völdum Covid í Namibíu, sem er rétt ríflega sex sinnum fjölmennara land en Ísland. Það jafngilti því að hátt í 200 hefðu látist hér, ekki 29,“ segir Helgi og bendir á að í gær hafi 45 látist í Namibíu og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi.

„Í dag óttast menn að talan gæti jafnvel tvöfaldast. Bóluefni virðist skorta í mörgum héruðum auk þess sem skortur hefur verið à súrefni og öndunarvélum. Heilbrigðisstarfsfólk, örþreytt og yfirkeyrt, ræður ekki við álagið víða. Það ríkir neyðarástand í landinu,“ segir Helgi sem bendir svo á að Íslendingar hafi hætt formlegri þróunaraðstoð í Namibíu árið 2010.

„Það eru til staðar einfaldar boðleiðir síðan þá. Við getum auðveldlega boðið fram aðstoð. Og veitt hana. Einhver gæti jafnvel sagt að okkur beri skylda til þess.“