Helgi s. gunnarsson, forstjóri regins, hjá jóni g.: leiguverð við laugaveg víða galið

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, er gestur Jóns G. í kvöld. Eignasafn Regins er metið á um 136 milljarða króna og eru þekktar fasteignir í því eins og Smáralind, Hafnartorg og Höfðatorg svo nokkrar séu nefndar. Í viðtalinu við Helga kemur fram að leiguverð við Laugaveg sé víða galið og hafi orðið til þess að verslanir og fyrirtæki hafi ekki séð sér fært að vera þar og flutt í burtu.

Hann segir að margar fasteignir við Laugaveg hafi skipt um eigendur frá hruni og að verðið hafi skrúfast upp við hver eignaskipti og sé orðið allt of hátt. Eigendur hafa því orðið að hækka verðið og eru mörg dæmi þess að fermetrinn við Laugaveg sé á bilinu 8 til 12 þúsund krónur fermetrinn. „Það er auðvitað alveg galið,“ segir Helgi.

 Hann segir að meðalverð á skrifstofuhúsnæði sé í kringum 2.200 kr. fermetrinn og að mjög gott og eftirsótt hágæða skrifstofuhúsnæði á góðum stað sé á bilinu 3.500 til 4.000 kr. fermetrinn að hámarki. „Meðalverð í nýju og fínu húsnæði hjá okkur í Hafnartorginu er núna á bilinu 5 til 6 þús. kr. fermetrinn og mun væntanlega hækkað eitthvað á næstu árum.“

Að sögn Helga hefur Reginn fjárfest markvisst að undanförnu í tengslum við kjarna eins og Höfðatorg-Borgartún, Hafnartorgið, Smáralindarsvæðið, Garðatorg í Garðabæ og í Hafnarfirði.

Reginn hefur leigt út 40 þúsund nýja fermetra á þessu ári og leiguhlutfallið er mjög hátt, en 97% af öllum eignum Regins eru í útleigu og hækkar hlutfallið í 98% um áramótin.