Helgi Pé: „Þetta var fyrir mig og fyrir okkur öll alveg gríðarlegt áfall og harmur“

Tón­listar­maðurinn ást­sæli Helgi Pé hefur gengið í gegnum ýmis­legt á sinni ævi. Ís­lendingar þekkja hann ef til vill best sem með­lim Ríó tríó og eitt þekktasta and­lit upp­hafs­ára Stöðvar 2, en á bak­við þetta góð­lega and­lit liggja mörg erfið á­föll og þungur harmur. Hann segir frá lífshlaupi sínu í þættinum Mannamál með Sigmundi Erni Rúnarssyni á Hringbraut í kvöld.

Æsku­vinur Helga og hljóm­sveitar­með­limur Ríó tríó, Ólafur Þórðar­son, lést á vo­veif­legan hátt eftir árás af hendi sonar síns fyrir um ára­tug síðan. Ólafur lá inni á Grens­ás í rúmt ár eftir á­rásina og lést síðla árs 2011. Helgi missti þar einn sinn besta vin og í senn missti hann ást­ríðuna fyrir því að spila tón­list.

Helgi og Ólafur höfðu þekkst frá unga aldri. „Við vorum náttúrulega búnir að þekkjast síðan við vorum 9 ára og áttum þetta sameiginlega „móment“ á milli okkar,“ segir Helgi.

Um hinn hrylli­lega at­burð hefur Helgi þetta að segja: „Maður á alltaf von á bílslysum eða veikindum eða einhverjum slíkum hlutum. En svona kjaftshögg er eitthvað sem glymur í hausnum á manni það sem eftir er. Þetta var fyrir mig og fyrir okkur öll alveg gríðarlegt áfall og harmur.“

Um fal­legar minningar og sterka tengingu þeirra æsku­vinanna segir Helgi þetta: „Það var þetta augnablik þegar maður var að byrja telja í, þá rétt teygði ég mig fram fyrir bassann og sá í augun á honum þarna hinu megin á sviðinu. Við kölluðumst alltaf á. Og þetta endurtekur þú ekki með neinum. Það er bara svoleiðis.“

Helgi missti ekki að­eins æsku­vin sinn, hann missti tón­listina úr lífi sínu. „Músíkin fór. Hún hefur verið mjög stór partur af mér. Ég get ekki meir á því sviði og vil ekki blanda því einhvern veginn eða sjóða það upp í einhverju öðru því þetta var það sem við áttum sameiginlegt og maður getur ekki skáldað það upp eða betrumbætt það,“ segir Helgi. Ljóst er af orðum hans að þeir vinirnir áttu eitt­hvað alveg sér­stakt saman.

Frá­fall Ólafs er ekki eina per­sónu­lega á­fallið sem Helgi hefur upp­lifað en hann hefur fengið krabba­mein þrisvar. „Fyrst þegar ég var rétt rúm­lega fer­tugur, í blöðru og það var mjög al­var­legt „case.“ Þá var ég skít­hræddur, var með lítil börn og allt það,“ segir Helgi en bætir við að hann hafi verið alveg ró­legur þrátt fyrir bar­áttuna sem fram­undan var.

Helgi sigraðist á krabba­meininu en var í reglu­legu eftir­liti hjá læknunum. Í einni slíkri skoðun komst upp krabba­mein í blöðru­háls­kirtli. Það var fjar­lægt með skurð­að­gerð, en í öllum þremur til­fellum hefur Helgi beðið sér­stak­lega um að reyna eins og mögu­legt er að sleppa því að fara í geisla.

„Ég hef haldið í það frá því að við bræðurnir misstum móður okkar þegar hún var 42 ára úr krabba,“ segir Helgi og segir að honum hafi stundum fundist hann finna bruna­lykt af henni þegar hún kom heim af spítalanum. Það situr í honum.

Nokkrum árum síðar fær hann krabba­mein í ristilinn. Í öllum þremur til­vikum hefur meinið greinst snemma og fljót­lega tekið á þeim. Hann kveðst heppinn og segir við karl­menn: „Farið þið í tékk!“