Helga Vala hefur áhyggjur af djammfólkinu: „Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu þessa hóps“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi verið margar óspurðar spurningar af tröppum ráðherrabústaðar í morgun og aðrar ósvaraðar um sóttvarnaraðgerðirnar.

„Frekari takmarkanir kynntar en ég velti fyrir mér hvort ekki hafi komið til álita að heimila veitinga og kráareigendum að taka ákvörðun um að loka alveg og eiga þá kost á lokunarstyrkjum,“ segir hún.

Hefur hún miklar áhyggjur af djammfólkinnu: „Nú fengum við vitanlega ekki upplýsingar um hvaða úrræði ríkisstjórnin hyggst kynna vegna þessa eftir helgi en það er alveg ljóst að þetta ástand sem verið hefur að undanförnu er að sliga margan rekstraraðilann og hef ég heyrt að þetta sé í raun versta ástand sem þau hafa lent í, með starfsfólk í sóttkví, kröfu um að halda opnu, kröfu um laun og greiðslu alls rekstrarkostnaðar en verulegar opnunartakmarkanir samhliða,“ segir hún á Facebook.

„Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu þessa hóps, enda varla hægt að reka staði með hámark 10 manns eða hvað? Hvernig verður þetta? Þá er óljóst með það hvort íþróttaleikir verða heimilaðir án áhorfenda, en komið hefur fram að viðburðir með áhorfendum geta ekki átt sér stað. Íþrótta- og tómstundastarf barna sömuleiðis. Vonandi skýrist þetta allt á næstu klukkustundum.“