Heiða Björk vill að fólk láti kettina í friði: „Mér finnst þetta svo hörmuleg hræsni“

„Mér finnst þetta svo hörmuleg hræsni, hjá þeim sem halda endalaust áfram að hamast í köttum, vitandi upp á sig sökina um eigin „vonsku“,“ segir Heiða Björk Sturludóttir, sagnfræðingur og dýraunnandi, í grein á vef Vísis í dag.

Í grein sinni lýsir Heiða Björk áhyggjum af því óorði sem stundum fer af köttum. Tilefni skrifanna er frétt RÚV um köttinn Mongús sem þótti alræmdur ógæfuköttur í Hveragerði. Hann lifir nú eins og blóm í eggi hjá nýjum eigendum í bænum eftir að fundist illa farinn og með högl í sér, líkast til eftir haglabyssu.

„Ég sé endrum og sinnum linnulausan hatursáróður gegn köttum og minnir það mig á ábyrgð orðanna. Enda hefur það sýnt sig, síðast í fréttum RÚV 26. febrúar 2021, að sumir grípa til ofbeldis. Ráðist er á ketti, þeir skotnir með haglabyssum greyin. Oft kettir sem hvergi eiga sér heimili, því hjartalitlir eigendur hafa yfirgefið þá eða vanrækja þá,“ segir Heiða.

Hún bendir á að kettir, þó þeir séu hálf-villtir, séu orðnir það heimilisvanir að þeir geta illa lifað af án hjálpar mannsins. Þeir sem gera það lifi ekki lengi og er lífið fyrir þá erfitt. „Ekki bætir úr skák að síðan eru þeir limlestir af kærleiksgrönnu fólki,“ segir hún.

Hún segir að annað mál sé síðan „dýrarasisminn“ sem stundum skín í gegnum skrifin og orðræðuna gegn köttum.

„Hundar eru svo góðir en kettir vondir skrifa og segja sumir. Og hvert er þá viðmiðið á góðu dýri og vondu? Það er maðurinn og hans egó. Ekkert í náttúrunni á rétt á sér nema maðurinn hafi gagn af því. Hundurinn gerir gagn. Hann smalar kindum, leitar að týndu fólki og er þannig til gagns. Á skala mannsins, gerir kötturinn þannig ekki gagn og þá er hann nánast réttdræpur. Skógarþrösturinn, gerir hann gagn? Hann veitir gleði. Sömuleiðis veita kettir stórkostlega gleði. Dýr geta þannig gert gagn, án hins hefðbundna skala um vinnusemi eða afurðir.“

Heiða segir að kettir séu stórkostleg dýr eins og hundar, fuglar, refir, hestar og kindur til dæmis.

„Í sjálfhverfu sinni presentera sumir, að kettir séu vondir, því þeir drepi fugla. (geisp). Maðurinn drepur mun fleiri fugla. Hann drepur rjúpur, endur, gæsir, kjúklinga og fleira. Oft hörmuleg meðferð sem fuglarnir hafa upplifað mánuðum saman, áður en maðurinn drepur þá,“ segir hún og bætir við að maðurinn eigi að vera gáfaðasta dýrið í sköpunarverkinu. Hún segir að enn séum við með fornaldarlegar aðferðir við framleiðslu kjöts og horfum fram hjá illri meðferð húsdýra.

„Mér finnst þetta svo hörmuleg hræsni hjá þeim sem halda endalaust áfram að hamast í köttum, vitandi uppá sig sökina um eigin „vonsku“. Ekki það að ég sé á móti dýraáti. Ég er ekki að predika gegn því. Bara, láta ketti í friði í stað þess að kasta steinum úr glerhúsi.“

Heiða segir að heimiliskettir, sem eru inni á næturnar og með bjöllu á sér, séu ekki mikil ógn við fugla.

„Hvað með það þó köttur drepi einn og einn fugl. Er fólk alveg dottið úr tengingu við náttúruna? Svoleiðis er náttúran. Maðurinn með sinn yfirgang, stærra og stærra byggingarsvæði, bílar, vegir, flugvélar, flugeldar, mótorhjól og læti skaða fuglalíf mun meira.“