Heiða B. sá mann rekinn úr strætó: „Ég eignaðist enga nýja vini í strætó í gær“

Heiða B. Heiðarsdóttir, sem rekur vefverslunina Pomp og prakt, varð vitni að því að maður var rekinn úr strætó í gær af strætóbílstjóranum. Hún segir frá atburðarásinni á Facebook-síðu sinni.

Heiða segist hafa spurt bílstjórann hvort maðurinn hafi neitað að borga en strætóbílstjórinn svaraði að svo væri ekki, heldur væri maðurinn andlega veikur og illa lyktandi.

Svar bílstjórans var nokkurn veginn á þennan veg að sögn Heiðu: „ Hann á það til að vera búinn að pissa í sig og mér og nokkrum öðrum bílstjórum líður bara ekki vel með að hafa hann í vagninum.“

Einhverjar konur tóku afstöðu með bílstjóranum að sögn Heiðu og fannst fínt að losna við illa lyktandi mann úr vagninum. „Ég eignaðist enga nýja vini í strætó í gær.“

Heiða spyr svo hvort einhver viti hvort vagnstjórar megi reka fólk úr vagninum sem hefur ekkert gert af sér. „Annað en að vera í hópi þeirra sem eru endalaust meðhöndlaðir eins og rusl,“ skrifar hún.

„Rétt að það komi fram að þessi maður hálf-grátbað bílstjórann um að leyfa sér að sitja í bara að næstu stoppistöð, án árangurs,“ skrifar Heiða að lokum.

Fleiri fréttir