Héðinn fékk á endanum nóg og sagði upp: „Ég setti ekki mörk, sagði aldrei NEI!“

Héðinn Sveinbjörnsson sagði upp starfi sínu hjá Reykjavíkurborg þann 12. febrúar á síðasta ári eftir tólf ára starf. Nokkrum mánuðum áður, eða í desember 2019, fór hann á alþjóðlegt námskeið í Kaupmannahöfn þar sem viðfangsefnið var „happiness at work“.

Héðinn segir frá þessu í athyglisverðum pistli sem birtist á vef Vísis á dögunum.

Samviskubit ef við veikjumst

Hann segir að eftir ferðina til Kaupmannahafnar hafi hann tilkynnt konunni sinni að hann vissi hvað hann langaði að verða þegar hann yrði stór. „Nú skyldi stofna fyrirtæki með fókus á „happiness at work“,“ segir Héðinn sem bætir við að fyrsta spurning konu hans hafi verið hvort hann væri kominn í einhvern sértrúarsöfnuð.

Í pistli sínum kemur Héðinn inn á það að Íslendingar séu aldir upp við það að sinna vinnu sinni af alúð og að vinnan skapi manninn.

„Samviskubitið sem hrjáir okkur ef við verðum veik er svo magnað að það mætti halda að vinnustaðurinn fari á hausinn ef við „flýtum“ okkur ekki að verða hress. Erum við ómissandi? Af hverju erum við með samviskubit gagnvart vinnustaðnum þegar kemur að veikindum? Hvers virði erum við gagnvart fjölskyldunni ef við erum ómissandi í vinnunni? Hvers virði erum við ef við erum svo ómissandi á vinnumarkaðnum að við brennum út, getum bara ekki meir?“

Verða þetta minningarorðin um þig?

Héðinn bendir á að margir hafi endurskoðað sýn sína á lífið eftir heimsfaraldurinn og þá sérstaklega þátttöku sína á vinnumarkaði.

„Eru mörkin á milli vinnu og einkalífs óljós? Er jafnvægi á milli vinnu og einkalífs? Verða minningarorðin um þig: „hann/hún/hán vann myrkranna á milli og á endanum var það vinnan sem drap!“

Héðinn segir að á hans tólf árum hjá Reykjavíkurborg hafi hann verið tilbúinn að gera margt því allt var svo spennandi.

Setti ekki mörk og sagði aldrei nei

„Oft var það þó þannig að verkefnin urðu bara fleiri, mörg hver óljós og sveigjanleiki var aðalatriðið. Þreytan sagði til sín, gleðin tapaðist þrátt fyrir að margt væri gert til að lyfta upp andanum,“ segir hann en eftir miklar vangaveltur ákvað hann að segja starfi sínu lausu. Hans síðasti vinnudagur var 31. maí 2020.

„Á þeim tímapunkti var ég kominn með meira en nóg. Í fjögur eða fimm ár var ég búinn að streða við að finnast vinnan mín skemmtileg, drykkja farin að aukast og ég sinnti ekki sjálfum mér. Á fyrirlestri hjá Ólafi Þór Ævarssyni og Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur um streitu uppgötvaði ég að ég hafði í langan tíma verið á skelfilegri leið þ.e. stress var orðið stór hluti af vegferð minni með öllu tilheyrandi,“ segir hann í pistli sínum og bætir við að stundum sé auðvelt að kenna öðrum um það sem illa fer.

„En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég sjálfur sökudólgurinn. Ég setti ekki mörk, sagði aldrei NEI! Miðað við aldur og fyrri störf þá mætti ætla að tilfinningin eftir að hafa sagt upp væri óöryggi og áhyggjur, en nei tilfinningin var góð. Það var eins og að þokunni í hausnum létti og allt í einu sá ég fyrir mér fullt af möguleikum sem ég hafði ekki séð áður. Þegar einar dyr lokast, opnast aðrar og allt það,“ segir hann.

Pistil Héðins má lesa í heild sinni hér en þar talar hann einnig um alþjóðlega viku vellíðunar í vinnu vikuna 20. til 26. september næstkomandi.