Haukur greinir frá ljótum sögum af fram­ferði fast­eigna­sala: „Heyrt frá fleiri en tveimur sem hafa lent illa í því útaf ná­kvæm­lega þessu“

Haukur Viðar Alberts­son, doktors­nemi í hag­fræði, heldur á­fram að skrifa um „sjálf­töku fast­eigna­sala út frá gjald­heimtu“ í nýrri grein á Vísi í dag.

„Sjálftakan og eigin­hags­muna­semin eins­korðast þó ekki við þau at­riði. Því til stuðnings ætla ég að nefna þrjú at­riði, frá ein­kenni­legu yfir í lög­brot,“ skrifar Haukur.

Hann brýtur skrif sín niður í þrjú at­riði og það fyrsta er að fast­eigna­salar tryggja sig fyrst.

„Sölu­þóknanir fast­eigna­sala eru al­mennt inn­heimtar með fyrstu greiðslu af kaup­verði. Það þýðir að fjár­hags­legur á­vinningur fast­eigna­sala er horfinn á þeim tíma­punkti, svo ef það koma upp vanda­mál t.d. áður en verður af loka­greiðslu með af­sali hefur það engin á­hrif á fjár­hag fast­eigna­salans[1]. Ef sölu­þóknun er sett upp sem hlut­fall af sölu­verði til að reyna binda saman hags­muni fast­eigna­sala og seljanda (sem þýðir að fast­eigna­sali vinnur fyrir seljanda en ekki kaupanda), er þá ekki ein­kenni­legt að það sé ekki bundið saman í gegnum allt ferlið? Væri ekki eðli­legra að fast­eigna­salinn hefði hag af því að klára allt ferlið til að fá sína greiðslu, ekki bara fyrri partinn?“ skrifar Haukur.

Seinna at­riðið er að fast­eigna­salar brjóta sam­keppnis­lög að mati Hauks.

„Í um­ræðunni um himin­háar sölu­þóknanir fast­eigna­sala veltir maður fyrir sér af hverju sam­keppnin þeirra á milli hafi ekki verið harðari. Eina skýringu er ef­laust að finna í hvernig Fé­lag fast­eigna­sala hegðar sér, en við árs­lok 2017 skrifaði fé­lagið undir sátt­mála við Sam­keppnis­eftir­litið þar sem fé­lagið gekkst við því að hafa brotið sam­keppnis­lög og borgaði stjórn­valds­sekt. Nánar til­tekið hafði fé­lagið stundað ó­lög­mætt verð­sam­ráð meðal fé­lags­manna (fast­eigna­sala) þar sem hvatt var til hækkunar sölu­þóknana og að lækka þær ekki. Þá gaf fé­lagið ráð­leggingar um hvernig mætti rétt­læta gjald­töku af kaup­endum og til við­bótar hvatti fé­lagið fé­lags­menn til að aug­lýsa eignir ein­göngu á vef í eigu fé­lagsins og snið­ganga aðra miðla,“ skrifar Hukur.

„Rann­sókn Sam­keppnis­eftir­litsins hafði hins vegar byrjað vegna skrifa í Frétta­blaðið um að Fé­lag fast­eigna­sala og lána­stofnanir hefðu sam­mælst um að mjatla eignum hægt og ró­lega inn á markað á árunum eftir hrun til þess að fjöldi tómra í­búða hefðu sem minnst á­hrif á verð. Hér er morgun­ljóst að sér­hags­muna­semin og sjálftakan er svo hömlu­laus að hún er ekki bara slæm fyrir neyt­endur heldur er hún hrein­lega ó­lög­leg, eða eins og Sam­keppnis­eftir­litið orðaði það „.. er ljóst af gögnum máls þessa að um um­fangs­mikil brot á sam­keppnis­lögum var að ræða sem áttu sér stað yfir langt tíma­bil,“ heldur Haukur á­fram.

Þriðja at­riðið snýr síðan að fjár­kúgun/ mútum fast­eigna­sala.

„Ég hef heyrt æði margar ljótar sögur af fram­ferði fast­eigna­sala frá svekktum kaup­endum og selj­endum. En eina sögu hef ég heyrt í­trekað: Fast­eigna­sali neitar að skila inn til­boði frá kaupanda til seljanda nema að kaupandi skuld­bindi sig til þess að selja eigin eign hjá fast­eigna­salanum. Hér tekur fast­eigna­salinn eigin hags­muni um­fram hag allra annarra, raunar svo að það hlýtur að vera ó­lög­legt,“ skrifar Haukur.

„Seljandinn fær oft á tíðum ekki besta verð þar sem aðilinn sem skilar inn besta til­boði kann ekki að vilja eða hafa eign fyrir fast­eigna­salann til að selja. Svo til­boðið skilar sér ein­fald­lega ekki inn. Á sama tíma fær kaupandi ekki að bjóða í eignina nema að hann greiði fast­eigna­salanum fyrir það háu gjaldi í formi sölu­þóknunar á eigin eign. Hér tapa bæði selj­endur og kaup­endur stór­kost­lega, kaupandi er beittur fjár­kúgun en fast­eigna­salinn gull­tryggir sjálfan sig. Vitan­lega á þessi hegðun ekki við alla fast­eigna­sala, en það að ég hafi per­sónu­lega heyrt frá fleiri en einum og fleiri en tveimur sem hafa lent illa í því út af ná­kvæm­lega svona at­viki segir mér á­kveðna sögu.“

„Af framan­greindu og fyrri greina­skrifum mínum held ég að það eigi ekki nokkur maður að vera í vafa um það að fast­eigna­salar starfa fyrst og fremst fyrir sjálfa sig og lítið fyrir aðra. Það er löngu kominn tími á breytingar á markaði þannig að fast­eigna­salar ráða ekki lengur ferðinni,“ skrifar Haukur að lokum.