Haukur: For­eldrar of­vernda börnin sín - Börn verða að fá að lenda í mót­læti

„Börn verða að fá að klifra, þótt þau muni detta,“ segir Haukur Örn Birgis­son, lög­fræðingur og pistla­höfundur, í bak­þönkum Frétta­blaðsinsí dag.

Þar skrifar hann um þá til­hneigingu for­eldra að of­vernda börn sín. Haukur nefnir dæmi:

„Má ekki bara sleppa þessu prófi, fyrst það skiptir svona litlu máli? Dóttir mín er mjög stressuð yfir því“ – heyrði ég móður eitt sinn segja á for­eldra­fundi. Ég hugsaði með mér hvers vegna stúlkan mætti ekki vera stressuð. Er ekki eðli­legt að vera skít­stressaður fyrir próf?“

Haukur bendir á að öll viljum við það besta fyrir börnin okkar og það sé sárt að horfa upp á þau líða eðli­legt. Það sé því eðli­legt þegar for­eldrar vilja koma í veg fyrir ó­þægi­elgar fé­lags­legar að­stæður og nei­kvæðar til­finningar barna sinna.

„Hvort sem þau hafa hruflað sig á hné, klúðrað víta­spyrnu í tap­leik eða gengið illa á prófi. Á hinn bóginn eru þetta allt eðli­legir við­burðir sem enginn kemst hjá að upp­lifa,“ segir hann.

Haukur bendir á að tíðni þung­lyndis og kvíða hjá börnum hafi aldrei verið hærri og auk þess eigi börn nú erfiðara með að takast á við and­leg á­föll.

„Nú er ég enginn sér­fræðingur, en tel það aug­ljós sannindi að for­eldrar mega ekki fjar­lægja hindranir sem verða á vegi barna sinna. Börnin verða að fá tæki­færi til þess að lenda í mót­læti, upp­lifa höfnun og takast á við að­stæður. Rétt eins og ó­næmis­kerfi líkamans þarf sýkla, þá þarf hugurinn á­reiti til að verða sterkari,“ segir hann og endar pistilinn á þessum orðum:

„Pabbinn sem hringir í þjálfarann sem ekki valdi soninn í liðið, mamman sem leyfir dótturinni að sleppa sumar­búðum vegna smá að­skilnaðar­kvíða eða for­eldrið sem leyfir ung­lingnum ekki að axla á­byrgð á eigin kæru­leysi í námi, svipta börnin sín tæki­færinu til þess að öðlast getu til að takast á við raun­veru­leg á­föll síðar á lífs­leiðinni. Börn verða að fá að klifra, þótt þau muni detta.“