Harmageddon hættir: „Við erum ekki að yngjast neitt“

Útvarpsþátturinn Harmageddon hættir fyrir fullt og allt á hádegi í dag.

Þessi geysivinsæli og umdeildi þáttur hefur verið á dagskrá útvarpsstöðvarinnar síðustu fjórtán ár, fyrst síðdegis en hefur verið á dagskrá fyrir hádegi síðustu ár.

Þáttastjórnendurnir Frosti Logason og Þorkell Máni Pétursson munu hverfa til annarra starfa.

„Okkur fannst við hæfi að slíta þessu eftir þessa kosningabaráttu og breyta aðeins til,“ sagði Frosti við Fréttablaðið.

„Þetta er stöð unga fólksins, við erum ekki að yngjast neitt. Það er ekki hægt að láta okkur verða að gömlum körlum þarna.“Í stað Harmageddon verður Tómas Steindórsson með þátt, einn til að byrja með. „Við Máni handvöldum hann sjálfir og höfum mikla trú á honum.“