Hringbraut skrifar

Haraldur: Vanhugsað og barnalegt - „blanda af kjánahrolli og óbragði“

23. febrúar 2020
14:54
Fréttir & pistlar

Drengurinn sem varð fyrir hópá­rás í síðustu viku í Hamra­borg er í á­falli og vill ekki fara í skólann né taka strætó af hræðslu við að mæta á­rásar­mönnunum aftur.

„Hann vill ekki fara í skólann. Hann hefur orðið fyrir miklu á­falli, bæði eftir á­rásina og eftir að þetta fór í fréttir. Vinir hans hringdu í hann en hann skammast sín fyrir þetta. Hann þorir ekki að fara í strætó því hann er hræddur um að mæta þessum strákum aftur. Þeir hafa sent honum skila­boð. Þeir segjast ætla að ráðast á hann aftur ef hann talar við lög­regluna og segjast vita hvar hann búi,“ segir faðir stráksins í sam­tali við Frétta­blaðið.

Haraldur Dean Nelson, faðir bardagakappans Gunnars Nelson tjáir sig um árásina á Facebook-síðu sinni. Haraldur segir að í kjölfarið á árásinni hafi Mjölni borist áskoranir um að bjóða drengnum að æfa bardagaíþróttir hjá Mjölni til að læra að verja sig. Haraldur segir:

„Án þess að ég þekki til þessa sérstaka máls þá vil ég þó segja að mál af þessu tagi verða ekki leyst með því að viðkomandi fari að æfa sjálfsvörn eða bardagaíþróttir þó ég mæli með slíku fyrir alla sem áhuga hafa. Það er hins vegar allt önnur nálgun sem fyrst þarf að eiga sér stað þarna,“ segir Haraldur og heldur áfram:

„Þegar ég síðan sé hinn og þennan fulltrúa félaga sem stunda bardagaíþróttir af öllu tagi vera að skora á menn að vísa drengnum til sín fæ ég einskonar blanda af kjánahrolli og óbragði.“

Haraldur kveðst vona að þessi áskorun sé vel meint þó hann telji hana vanhugsaða. Haraldur segir að lokum:

„Þarna þarf annað og alvarlegra samtal að fara fram og mikilvægt að gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Það er í besta falli barnalegt ef menn halda að þekking í bardagaíþróttum eða sjálfsvörn sé einhver töfralausn í málum sem þessum.“