Haraldur snýst í hring: JÁ OG AFTUR NEI

Vandræðagangur hrjáir sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi eftir að Haraldi Benediktssyni var velt úr sessi sem oddvita lista þeirra í prófkjöri um helgina. Fyrirfram hafði Haraldur lýst því hátíðlega yfir að ekki kæmi til greina að hann tæki annað sætið á lista flokksins. Yrði honum hafnað í fyrsta sætið tæki hann alls ekki sæti á listanum. Orð hans voru afdráttarlaus og skýr. Fyrir þau uppskar hann miklar skammir frá nokkrum helstu valkyrjum flokksins sem gagnrýndu hann harðlega og töldu að með þessari yfirlýsingu beitti Haraldur ósanngjörnum baráttuaðferðum í prófkjörinu. En hann sat fast við sinn keip

Ýmsir telja hótun Haraldar hafa skaðað hann og tryggt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrsta sætið. Hún er ráðherra og varaformaður flokksins og því þurfti ekki að koma á óvart þótt hún hlyti góða kosningu í prófkjörinu.

Nú, þegar prófkjörið er afstaðið og búið að hafna Haraldi Benediktssyni í fyrsta sætið, virðist hann hins vegar ekki ætla að standa við stóru orðin og hætta. Hann snýst í hringi og svo virðist sem hann leiti leiða til að halda áfram án þess að missa andlitið þó að hann þurfi að sætta sig við annað sætið á lista flokksins í kjördæminu. Nú talar hann um misskilning, að rangt hafi verið haft eftir sér. Óneitanlega minnir hann á framsóknarmenn sem hafa stundum verið „opnir í báða enda“ og jafnvel sagt „já og aftur nei“ þegar þeir hafa tjáð skoðanir sínar sem oft þykja óljósar og tilviljunarkenndar. Þá eru fjölmargir stjórnmálamenn úr ýmsum flokkum þekktir fyrir að standa illa við orð sín og yfirlýsingar.

Haraldur stendur frammi fyrir því að missa drjúgar tekjur hætti hann á þingi. Starfskjör óbreyttra þingmanna eru nálægt einni og hálfri milljón króna. Þykir það vel borgað fyrir „þægilega innivinnu“. Þá er því ekki að leyna að margir sjálfstæðismenn mega ekki til þess hugsa að eini bóndinn í þingliðinu hverfi af þingi og í hans stað komi enn einn lögfræðingurinn, Teitur Björn Einarsson, sem takmarkaður spenningur er fyrir. Enda er svo komið fyrir Sjálfstæðisflokknum að nú stefnir í að meirihluti þingflokks þeirra verði skipaður lögfræðingum.

Breiddin í forystu flokksins er orðin vandræðalega lítil. Áður fyrr komu þingmenn flokksins úr ýmsum áttum og sjálfstæðismenn kölluðu flokkinn sinn „flokk allra stétta“. Þá voru í þingflokknum verkalýðsleiðtogar, íþróttafrömuðir, bændur, sjómenn, sveitarstjórnarmenn, kennarar, læknar og menntamenn. Úr hópi bænda er Haraldur einn eftir og enginn fulltrúi hinna stéttanna sýnilegur. Breiddin sem eitt sinn einkenndi flokkinn og gerði hann að fjöldahreyfingu er horfin. En ríkulegt framboð er af löglærðum. Einhverjir myndu kalla það offramboð.

- Ólafur Arnarson