Haraldur slapp naum­lega úr brunanum í Breið­holti – Sendir mikil­væg skila­boð til fólks

Haraldur Rafn Páls­son biðlar til fólks að kanna stöðu mála á reyk­skynjurum og öðrum reyk­vörnum á heimilinu. Hann lenti í þeirri skelfi­legu lífs­reynslu á dögunum að missa húsið sitt sem hann hafði ný­lega fest kaup á á­samt inn­búi.

Eldur kviknaði í húsi Haraldar í Kalda­seli í Breið­holti á mánu­dag en í opinni færslu á Face­book lýsir hann þakk­læti sínu fyrir að ekki fór verr.

„Þessi at­burður markaði mikil og djúp­stæð á­hrif á mig þar sem litlu munaði að ég yrði sjálfur bráð eldsins. Fyrir ein­hverja ó­skiljan­lega á­stæðu vaknaði ég upp­úr værum svefni og náði naum­lega að átta mig á að­stæðum og koma mér út, án teljandi meiðsla, fyrir utan væga reyk­eitrun og nokkrar skrámur. Að­eins nokkrar sekúndur réðu þar úr­slitum og á tíma­bili hélt ég að þetta væru mín ör­lög og endir.“

Haraldur segist vera þakk­látur fyrir að vera til frá­sagnar um elds­voðann og kveðst hann kunna að meta lífið betur og horfa á það með öðrum augum nú en áður.

„Engin orð eru til sem lýsa því hversu þakk­látur ég er fyrir það að eiga góða fjöl­skyldu að og allra bestu vini sem völ eru á. Án ykkar væri ég ekki heill heilsu í dag og verð ég ykkur ævin­lega þakk­látur fyrir allt það sem þið hafið gert fyrir mig.“

Haraldur segist þó fyrst og fremst hafa skrifað færsluna til að biðla til fólks um að kanna stöðu mála á reyk­skynjurum og öðrum reyk­vörnum og gera við­eig­andi ráð­stafanir.

„Þetta er eitt­hvað sem engin á von á að gerist hjá sér en getur gerst fyrir alla. Elds­voði gerir ekki boð á undan sér. Í öðru lagi langar mig að þakka öllum þeim sem hafa sent mér hug­heilar kveðjur eftir at­vikið eða sett sig i sam­band við mig - ég kann mikið vel að meta það. Að lokum vil eg taka fram að eg af­þakka öll fram­lög og þess háttar en bið ykkur þess i stað að fjár­festa í ykkar eigin öryggi og hlúa að ykkar nánustu. Það er alls ekki sjálf­gefið að eiga gott fólk i kringum sig.“

Kæru vinir, i ljósi atburða seinustu daga þykir mér tilefni til að koma eftirfarandi á framfæri: Eins og eflaust margir...

Posted by Haraldur Rafn Palsson on Miðvikudagur, 27. janúar 2021