Hannes segir kirkjuna ekki eiga að styðja fjölmenningu: „Það er öfga-íslamið eitt, sem hatar okkur“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það ekki hlutverk Þjóðkirkjunnar að styðja við fjölmenningu og búa til vettvang til að kynnast Íslam.

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju í Garðabæ, stendur fyrir erindi Magnúsar Bernharðssonar, prófessors í sögu við Williams-háskólann í Bandaríkjunum, í kirkjunni kl. 20 í kvöld þar sem hann mun ræða um Íslam. Yfirskrift fyrirlesturs Magnúsar er: Af hverju hata þau okkur.

Jóna Hrönn segir við DV að það sé hlutverk kirkjunnar að styðja við fjölmenningu í landinu. „Það er alveg skýr afstaða hjá þjóðkirkjunni að leyfa ekki trúarbrögðum að byggja múra á milli menningarheima. Þannig er það líka alveg skýrt að kirkjan stendur með flóttafólki og það er skylda okkar að kynna okkur menningu og trú þeirra, tala með þeim en ekki gegn þeim. Því það er auðvitað algjörlega óþolandi þegar við tölum hvort annað niður,“ sagði hún.

Hannes segir einfaldlega: „Nei. Það er umfram allt hlutverk kirkjunnar að rækta tengslin milli manns og Guðs, hefja andann upp yfir hið veraldlega, beina sjónum að hinum almenna og eilífa, lyfta hinum breyska manni upp,“ segir hann á Facebook. „Og það er ekki okkur að kenna, að fámennir hópar öfgamanna í múslimalöndum hata vestræna menningu með öllum hennar fjölbreytileika og því umburðarlyndi, sem er afleiðing af sátt margra kynslóða, eftir því sem menn lærðu betur að sætta sig hver við annan og smíðuðu plóga úr sverðum.“

Hannes heldur áfram: „Það er einmitt ekki í þágu fjölbreytileika og fjölmenningar að ýta undir öfga-íslam, og það er öfga-íslamið eitt, sem hatar okkur. Þorri fólks í múslima-löndum er ósköp venjulegt fólk, sem hefur mestar áhyggjur af því að hafa í sig og á og ala upp börnin og búa þeim góða framtíð, þótt það fái ekki alltaf að gera það fyrir spilltum valdhöfum.“