Hannes keypti dýrustu þakíbúð landsins: 365 milljónir fyrir rúma 300 fermetra

Dýrasta þakíbúð landsins, við Vatnsstíg 20-22, er komin í eigu eignarhaldsfélagsins Punds en umrætt félag er í eigu Hannesar Hilmarssonar, stjórnarformanns Atlanta.

Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Íbúðin var áður í eigu Skugga 4 ehf. og var kaupverð Punds 365 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi sem móttekin var til þinglýsingar í lok maímánaðar. Íbúðin er 314,4 fermetrar og var fermetraverðið því 1.160 þúsund krónur.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið kemur fram að fjögur stæði fylgi íbúðinni í bílageymslu. Íbúðin er á 16. og 17. hæð hússins og fylgir henni tæplega 40 fermetra þakgarður til suðurs á 17. hæðinni. Félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem er oft kenndur við Brim, átti íbúðina á sínum tíma en seldi hana til félags í eigu Róberts Wessman fjárfestis árið 2017.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að íbúðin afhendist fokheld þó að fimm ár séu liðin síðan íbúðaturninn var tilbúinn.