Hannes Hólmsteinn skammar Jón Þór Pírata: „Hefur þetta fólk ekkert að gera við sinn tíma?“

Í dag bárust fregnir af því að Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hygðist kæra Inga Tryggvason, formann yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglu fyrir það sem Jón kallar „mögulegt kosningasvindl.“

Þessu lýsir Jón yfir í afar löngu og nákvæmu máli í aðsendri grein á Vísi og hefur vakið nokkra athygli fyrir og lof þeirra sem uppkosningu vilja á landinu öllu eða í þessu einstaka kjördæmi.

Ekki eru þó allir jafn hrifnir af þessu uppátæki Jóns Þórs, enda kann það að virðast sérkennilegt að kæra mann fyrir að hafa mögulega brotið af sér.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er einn þeirra. Hann setur stórt spurningarmerki við kæru Jóns og spyr hvort hann hafi einfaldlega ekkert betra með tíma sinn að gera:

„Það er ekkert lát á endisleysunni. Menn eru venjulega ekki kærðir fyrir möguleika á að fremja brot, heldur fyrir að fremja brot (og síðan þarf að sanna brotið). Hefur þetta fólk ekkert þarfara að gera við sinn tíma?“ segir Hannes Hólmsteinn á Fésbókarsíðu sinni, hvar hann deilir aðsendri grein Jóns á Vísi.

Undir þetta tekur nokkur fjöldi fólks, þar á meðal Gústaf Níelsson, bróðir Brynjars Níelssonar og mikill samfélagsrýnir. Hann spyr einfaldlega: „Skyldi Jón Þór vera aðili máls?“

Jónas nokkur Hrólfsson svarar Gústaf og segir: „nær hann ekki að gera sig það þó hann komi alls ekki nálægt þessu.“

Þá svarar Gústaf: „Tja, hef bara ekki hugmynd. Þetta snýst um lögfræði, en ekki einhverja sérvisku.“

Jónas bætir einnig við athugasemd undir færslu Hannesar og segir: „Er það hans að kæra? Hann er ekki aðili málsins nema kannski að vera í sama flokki og einn sem átti hlut að máli.“

Stefán nokkur Hallgrímsson tekur undir með Hannesi og setur spurningarmerki við hvort hægt sé að kæra mann á „mögulegum“ forsendum: „Er hægt að kæra einhvern fyrir að hafa mögulega gert eitthvað ? þarf ekki einu sinni rökstuddan grun?“

Enginn annar en Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spyr einfaldlega hvernig standi á því að Jón Þór sé að blanda sér í þetta mál og segir: „Hvaða aðild á Jón Þór að þessu máli?“

Jónas svarar Birni og tekur undir: „Ekki skrítið að spurt sé.“