Hannes hefði kosið Hillary Clinton fyrir fjórum árum – Nú myndi hann kjósa Trump

29. október 2020
22:22
Fréttir & pistlar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að hann myndi kjósa Donald Trump Bandaríkjaforseta, ef hann myndi kjósa í bandarísku forsetakosningunum næsta þriðjudag.

Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið hér á landi eru aðeins rúm fjögur prósent Íslendinga sem myndu kjósa Trump ef þeir hefðu atkvæðisrétt, Biden fengi 96 prósent.

„Fyrir fjórum árum kaus ég Hillary Clinton, en núna myndi ég kjósa Trump (og lenda í miklum minni hluta), því að gerðir hans hafa verið miklu skárri en orðin,“ segir Hannes á Facebook. „Hann hefur sneitt hjá stríðsátökum, lækkað skatta og skipað hæstaréttardómara, sem munu fara eftir stjórnarskránni í stað þess að þröngva einkaskoðunum sínum upp á aðra.“

Þá hafi Facebook og Twitter reynt að ritskoða fréttir óhagstæðar Biden, og allir álitsgjafar í íslenskum fjölmiðlum segja hið sama, segir Hannes að þeir búi saman í bergmálshelli. Kannanir Vestanhafs sýna að Biden sé með um 9 prósenta forskot á forsetann. „Úrslitin verða ekki, að Biden sigri, heldur að Trump tapi, held ég: Menn kjósa Biden til að losna við Trump, en ekki af hrifningu með Biden.“

Þá beindi Hannes orðum sínum að misskilningi varðandi kosningakerfið í Bandaríkjunum: „Ég ræddi líka um þann misskilning, sem sumir samkennarar mínir ýta undir, að málið snúist um að leggja saman atkvæðatölur frambjóðendanna í ríkjunum fimmtíu. Það snýst ekki um það, heldur sendir hvert ríki sína fulltrúa á kjörmannasamkomu. Bandaríkin eru ríkjasamband, ekki sambandsríki.“