Hanna skrifar opið bréf til gerenda: „Hættið að horfa á konur sem kynverur“

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, aktívisti og kynjafræðikennari, lagði fram sjö tillögur til betrumbóta fyrir karlkyns gerendur í kynferðisbrotamálum, hvort sem það er ofbeldi eða áreiti, í aðsendri grein á Vísi í gær. Hún vill hjálpa þeim að snúa við blaðinu og vera hluti af lausninni.

Hanna hefur farið mikinn í samfélagslegri umræðu síðustu vikur og mánuði, en eins og frægt er skrifaði hún harðorða grein um KSÍ sem endaði með afsögn stjórnarinnar skömmu síðar. Henni er afar annt um málefni þolenda og hefur barist hart gegn gerendameðvirkni og þolendaskömmun.

Hanna segir í pistli sínum að gerendur séu ekki vondir menn: „Þið eruð ekki vondir menn, þið fæddust ekki með innbyggða kvenfyrirlitningu og vilja til að vera andstyggilegir og meiðandi við konur. En þið hafið látið undan ykkar lægri hvötum með eða án meðvitundar um það.“

Þá segir hún samfélagið vera hannað fyrir karlmenn, af karlmönnum: Menningin okkar og samfélag eru hönnuð af ykkar kynbræðrum, fyrir ykkur. Samfélagsleg gildi og verðmætamat er skilgreint með ykkar hagsmuni og forréttindi að leiðarljósi. Meintir andlegir og líkamlegir yfirburðir ykkar kyns hefur gjarnan verið notað sem réttlæting á forréttindastöðunni,“ segir Hanna og segir þetta karlhannaða samfélag oftast þekkt sem feðraveldi.

Hanna heldur áfram: „Samfélagið og feðraveldið hefur spilað með ykkur, almannarómurinn, og varið ykkur þegar þolendur hafa gert tilraunir til að fá fram réttlæti. Dómskerfið er fjandsamlegt þolendum og hliðhollt ykkur. Stjórnendur á vinnustöðum hafa verið meðvirkir með ykkur og látið þolendur fara frekar en að stíga inn í og stöðva skaðlega hegðun ykkar.“

Hún segir skömmina og sökina aldrei eiga að vera hjá þolendum: „Fjölskyldur hafa tekið afstöðu með ykkur og gegn þeirri sem brotið var á. Þolendur hafa þurft að flýja ykkur í gegnum tíðina og iðulega setið uppi með skömm og sök á því sem gerðist. En skömmin og sökin var aldrei þolenda, heldur ykkar.“

Hanna segir klámvæðingu eitt helsta mein samfélagsins og karlmenn líti á konur sem kynverur: „Staðan í núinu er sú að ungum mönnum er bókstaflega innrætt að fyrirlíta konur og skilgreina þær á kynferðislegan hátt, með útbreiðslu á kynferðislega örvandi efni sem inniheldur niðurlægingu og ofbeldi gegn konum. Við köllum þetta klám og klámvæðingu í daglegu tali og þetta viðgengst og gegnsýrir menninguna svo til án athugasemda. Það væri upplagt að þið tækjuð afstöðu gegn þessari skaðlegu menningu sem beint er gegn ungu fólki sérstaklega, og töluðuð máli þess að efla jafnréttisfræðslu á öll skólastig.“

Karlmenn hafi aldrei leyfi til að lítillækka, áreita eða beita konur ofbeldi: „Þið hafið aldrei haft leyfi kvenna til að lítillækka þær, áreita, niðurlægja eða beita ofbeldi. Aldrei. Hvergi. Þið hafið tekið ykkur þetta vald í kynferðislegum yfirgangi og tilkalli til yfirráða, valds og stundum með líkamlegum yfirburðum. Í mörgum tilfellum er yfirgangurinn til að bæta upp fyrir minnimáttarkennd og þörf til að drottna yfir öðrum,“ segir Hanna.

Í niðurlagi pistilsins leggur Hanna fram spurningu fyrir karlkyns gerendur og segir: „Nú er spurning hvort þið ætlið að halda áfram að vera hluti af vandanum, eða snúa við blaðinu og vera hluti af lausninni.“

Því næst segir hún að ef gerendur vilji gera samfélagið betra, öruggara og farsælla þá sé hún með nokkrar tillögur til að hægt sé að ná því markmiði:

„Axlið ábyrgð af auðmýkt og hugrekki - Látið til ykkar taka þegar þið verðið vitni að öðrum beita misrétti/kvenfyrirlitningu - Horfist í augu við eigin misgjörðir - Komið fram við öll af virðingu, alltaf og allstaðar - Hættið að horfa á konur sem kynverur fyrst og fremst - Leitið aðstoðar fagfólks ef þið ráðið ekki við hegðun ykkar - Þekkið forréttindin ykkar,“ segir Hanna og setur punkt við pistilinn.