„Hann er með skringilegt höfuð á herðum sér“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafnar því að sú ákvörðun að draga fyrirtækið út úr landamæraskimun stjórnvalda sé afleiðing frekjukasts.

Þetta segir hann í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann svarar pistli Smára Mc­Cart­hy, þing­manns Pírata, frá því fyrr í dag. Í pistlinum hélt Smári því meðal annars fram að núverandi staða væri afleiðing þess að grafið hafi verið undan heilbrigðiskerfinu í þágu einkafyrirtækja.

Í færslu sinni rekur Kári ríka aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að skimun fyrir COVID-19 og viðbrögðum stjórnvalda við faraldrinum.

„Þetta höfum við gert af fúsum og frjálsum vilja sem sjálfboðaliðar og án þess að fá fyrir þetta greiðslu. Við höfum á þessum fjórum mánuðum vanrækt dagvinnuna okkar að því marki að það stefnir framtíð ÍE í hættu. Án þessa framlags hefði varla tekist að koma böndum á faraldurinn.“

Þá gagnrýnir hann skort á samráði heilbrigðisráðuneytisins við fyrirtækið og að ríkisstjórnin hafi ekki séð brýnni þörf fyrir að koma á fót sérhæfðri sóttvarnarstofnun.

Kári segir viðbrögð stjórnvalda hafa verið á þá leið að fyrirtækið gæti ekki séð fyrir lokin á þátttöku þess í landamæraskimuninni. Þá hafi það eina í stöðunni verið að láta gott heita.

„Við björguðum því sem brjargað varð og þegar við þurfum að snúa okkar að því að halda okkur sjálfum á floti flokkast það í huga Smára undir afleiðingar frekjukasts. Hann er með skringilegt höfuð á herðum sér hann Smári en alls ekki alvitlaust.“