Hamborgari með hamborgara- relish steinliggur um helgina

Það er að koma helgi, það eru að koma páskar og það er aftur komið Covid. Ef slíkt ástand kallar ekki á grillaðan girnilegan sælkera hamborgara og ískaldan drykk þá vitum við ekki hvað. Hér kemur einn eðal gúrme hamborgari úr smiðju Berglindar Hreiðars hjá Gotterí og gersemar sem enginn verður svikinn af.

„Á dögunum var ég að þróa nostalgíuuppskrift af Svindlsamloku úr Skaraskúr og þar útbjó ég hamborgararelish fyrir leynisósuna í þeirri samloku. Ég hugsaði strax með mér að hamborgara-relish yrði nú að vera prófað á hamborgara líka og ákvað því að skella í slíka samsetningu sem var alveg geggjuð,“ segir Berglind og er ótrúlega ánægð með útkomuna á hamborgaranum með relish.

Við hjá þættinum Matur og Heimili prófuðum þessa uppskrift og notuðum Smash hamborgarana frá Ferskum kjötvörum sem fást í Bónus og vá hvað þeir voru góðir með þessari samsetningu, ómótstæðilegt kombó þarna á ferð.

M&H Hamborgarveisla BH2.jpg

Sælkera hamborgari með relish í Smash style steinliggur um helgina./Myndir Berglind Hreiðars.

Hamborgarar með hamborgara - relish

Fyrir 4

  • 4 hamborgarar með brauði (Smash hamborgarnir steinliggja)
  • Ostsneiðar
  • Hamborgarakrydd
  • Hamborgarasósa
  • Kál
  • Tómatar
  • Hamborgara relish
  • Pikklaður rauðlaukur

Hamborgara relish uppskrift

  • 50 g grænt relish á flösku
  • 60 g tómatsósa
  • 1 tsk. grillaðar paprikur (úr krukku)
  • ½ tsk. paprikuduft
  • ½ tsk. hvítlauksduft
  • ½ tsk. laukduft
  • ½ tsk. salt
  • ¼ tsk. kanill
  • ¼ tsk. hvítur pipar
  1. Saxið grilluðu paprikurnar alveg niður í mauk og blandið síðan öllum hráefnum saman í skál.

Pikklaður rauðlaukur uppskrift

Það er nóg að gera ½ uppskrift fyrir hamborgarana en þessi laukur geymist þó vel í lokuðu íláti í kæli og dásamlegt að eiga hann á annað góðgæti.

  • 3 meðalstórir rauðlaukar
  • 250 g sykur
  • 250 ml vatn
  • 250 ml borðedik
  • 2 msk. rauðbeðusafi (fyrir bleikari lit, má sleppa)
  1. Skerið laukinn niður í þunnar sneiðar (heila hringi) og losið þær í sundur, setjið í stóra krukku/skál sem hægt er að loka.
  2. Sjóðið saman sykur, vatn og edik þar til sykurinn er uppleystur og bætið að lokum rauðbeðusafanum saman við.
  3. Hellið sjóðandi blöndunni yfir laukinn, setjið lokið á og setjið inn í kæli yfir nótt. Laukurinn geymist síðan vel í kæli.

Berið hamborgarana fram með frönskum kartöflum eða þeim kartöflum sem ykkur þykir bestar og fáið ykkur ískaldan drykk með. Njótið í botn.