Hámarkshraði lækkar: Götur þrengdar og rúmlega 400 „30 km hlið“ sett up

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt nýja hámarkshraðaáætlun fyrir allar borgargötur. Um er að ræða götur sem eru í eigu borgarinnar en ekki Faxaflóahafna eða Vegagerðarinnar.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður ráðsins, fagnar þessu innilega á Twitter-síðu sinni og segir breytinguna skref í átt að því markmiði borgarinnar að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. „Öll eigum við rétt á að búa í öruggu umhverfi.“

Hún segir að sé ætlunin að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni, þar sem ólíkir ferðamátar mætast, verði blöndun ólíkra ferðamáta að vera á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda.

„Stórt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða við þær aðstæður,“ segir hún og bætir við að ekki sé réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins líkt og minni tafir. Heilsan komi fyrst.

Hún bætir við að allt of margar götur séu með 50 og 60 kílómetra hámarkshraða. Með breytingunni verði engin borgargata með yfir 50 kílómetra hámarkshraða og langflestar götur verði með 30 og 40 kílómetra hámarkshraða. „Þetta er í fyrsta skipti sem öll hverfi borgarinnar verða með 40 kílómetra götum.“

Hún segir að til að fylgja þessari nýju áætlun eftir verði meðal annars ráðist í eftirfarandi:

- Yfir 400 ný '30 km hlið' sett upp.

- 700 nýjar yfirborðsmerkingar með nýjum hámarkshraða.

- Götur verða þrengdar.

- Gróðri bætt í göturými.

- Og hjólastígar lagðir samsíða götu.

Þá bætir hún við að samfélagslegur sparnaður þessara aðgerða sé metinn á 2,6 milljarða króna.

Hægt er að sjá Twitter-færslur Sigurborgar hér að neðan: