Hallgrímur las pistilinn aftur: „Það sem blasir við er jafnvel verra en mig minnti“

Hallgrímur Helgason rithöfundur segist hafa tekið sig til í gærkvöldi og lesið umdeildan pistil útvarpsmannsins Eiríks Guðmundssonar sem fyrst var fluttur árið 2015.

Eins og Hringbraut greindi frá í liðinni viku opnaði Hallgrímur sig á dögunum um þau viðbrögð sem hann fékk hér á landi eftir að hann sagði frá nauðgun sem hann varð fyrir á námsárum sínum í Þýskalandi. Hallgrímur greindi frá þessari erfiðu reynslu í bókinni Sjóveikur í Munchen sem kom út árið 2015.

Rifjaði Hallgrímur upp að rithöfundurinn Guðbergur Bergsson hafi brugðist við með því að gera stólpagrín að nauðguninni sem Hallgrímur varð fyrir og sakaði hann um að hafa skáldað þetta upp í þeirri von að selja fleiri bækur. Hallgrímur lýsti því svo þegar Eiríkur las pistil Guðbergs í þættinum Víðsjá á Rás 1 – hann hafi smjattað á orðum Guðbergs líkt og hann hefði gaman af.

„Ég átti erfitt með að trúa því sem var að gerast. Stjórnandi helsta menningarþáttar Ríkisútvarpsins var að grínast með nauðgunina sem ég lenti í! Þetta var áfall, þarna upplifði ég það sem margir brotaþolar lenda í, “secondary victimisation” heitir það á fræðimáli, þegar þolendur segja frá og verða fyrir aðkasti og spotti samfélagsins,“ sagði Hallgrímur meðal annars í pistlinum.

Skiptar skoðanir

Á þeirri tæpu viku sem liðin er síðan Hallgrímur birti skrif sín hafa margir stigið fram og lýst skoðun sinni. Hringbraut greindi frá því um helgina að leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hefði kallað eftir því að RÚV bæði Hallgrím afsökunar á rætnum, særandi og meiðandi pistli Eiríks.

Aðrir eru á því að Hallgrímur gangi of langt í viðbrögðum sínum, þar á meðal er rithöfundurinn Hermann Stefánsson sem segir berum orðum að Hallgrím misminni en viðurkennir þó að Eiríkur hafi dansað á línunni.

„Hallgrími Helgasyni misminnir. Það er ekki sagt honum til hnjóðs. Þannig virkar minnið einfaldlega. Minnið er skapandi. Pistill Eiríks er ekki glaðhlakkaleg smánun á Hallgrími heldur málefnaleg og krítísk umfjöllun um bókmenntir og menningu, játningar og fjölmiðla. Það sér hver sem les,“ sagði hann í færslu á Facebook í gærkvöldi.

Verra en hann minnti

Í nýrri færslu sem Hallgrímur birti í morgun segist hann hafa lesið umræddan pistil Eiríks aftur.

„Mig langaði alls ekki til að fara aftur á þennan stað (treysti mér bara ekki til þess) en tók mig þó og las hann í gærkvöldi. Það sem blasir við er jafnvel verra en mig minnti. Á sínum tíma yfirgnæfðu fyrir mér línur Guðbergs annað í pistlinum en nú sé ég betur hvað hann var í raun. Þáttastjórnandi á Rás eitt átelur mig þarna fyrir að stíga fram með 30 ára gamla nauðgun og fjalla um hana í bókmenntaverki. Hvers vegna hann gerir það, skil ég ekki alveg, er það vegna þess að bókmenntir eiga að vera penar og stilltar? Eða vegna þess að Guðbergi Bergssyni er það ekki að skapi?“

Hallgrímur segir að pistill Guðbergs sé síðan notaður til að hæða hann og hirta fyrir einmitt þetta; að skrifa um lykiltráma í sínu lífi í sjálfsævisögulegu verki.

„Ýmsir hafa síðan notað birtingu pistilsins til að kveða úr um að mér geti ekki hafa sárnað þetta, þetta hafi ekki verið nálægt því sem kallast “gerendagrín”, heldur “bókmenntaumræða”. Slíkt er vel þekkt í kynferðisofbeldisfræðunum og heitir gaslýsing. Reynt er að sannfæra þolandann um að hann misminni og honum geti ekki hafa liðið svona illa.“

Ákveðið form kynferðisofbeldis

Hann segir að „bókmenntaumræðan“ svokallaða sé svo sér kapítuli út af fyrir sig og hafi aldrei getað orðið djúp, enda Eiríkur augljóslega ekki lesið bókina.

„Það er auðvitað ekkert gaman að hafa nauðgunina sína hangandi þarna úti enn á ný og framlengja umræðu sem hægt væri að ljúka. Nú er bráðum vika síðan ég rifjaði upp þetta leiðindamál, þegar þáttastjórnandi hjá RÚV gerði sér góðan mat úr pistli sem hæddi þolanda nauðgunar fyrir að segja frá henni og átaldi hann síðan sjálfur fyrir að stíga fram, og enn er enginn endir í augsýn, því miður,“ segir Hallgrímur og bætir við að andrúmsloftið virðist því miður ekki hafa breyst eins mikið og hann hélt.

„Því enn á ný kemur nú menningarfólk fram, skrifandi kollegar jafnvel, og blessar pistil Eiríks og gaslýsingar vina hans. Og það jafnvel eftir tvær heilar bylgjur af Metoo. Aðeins eitt að lokum, svo fólk sé með það á hreinu: Þegar þolandi kynferðisofbeldis er skammaður fyrir að stíga fram, kæra, segja frá eða skrifa sig frá því, þá er það ákveðið form kynferðisofbeldis.“