Hallgrímur birtir mynd af brosandi þingmönnum og segir að stundum geri gott fólk vont

„Ég þekki flest af þessu fólki á myndinni og það mest af góðu einu en stundum gerir gott fólk vont,“ segir Hallgrímur Helgason rithöfundur á Facebook-síðu sinni.

Hallgrímur birti mynd af brosandi þingmönnum Vinstri grænna á Facebook-síðu sinni í gær og fullyrðir að hún hafi verið tekin hálftíma á eftir eða undan því að þetta sama fólk neitaði að samþykkja ríkisborgararétt handa Nígeríumanninum Uhunoma Osayomore.

Hallgrímur hefur farið fyrir hópi fólks sem hefur barist fyrir því að Osayomore fái að dvelja áfram á Íslandi. Í vetur safnaði hópurinn 46 þúsund undirskriftum sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk afhentar.

Í færslu sinni segir Hallgrímur að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafi greitt atkvæði með Páli Magnússyni gegn Uhunoma í allsherjarnefnd um veitingu ríkisborgararéttar. „Það voru tvö atkvæði gegn einu frá Þórhildi Sunnu, Pírötum.“

Hallgrímur segist oft hafa orðið fyrir vonbrigðum með VG á kjörtímabilinu og stundum gapað hreinlega af furðu.

„Eins og þegar þau vörðu Andersen, lækkuðu veiðigjöld eða hundsuðu þjóðaratkvæðið. Botninn kom þó líklega þegar fræðimaðurinn Stefán Pálsson mætti í útvarpið til að verja meðferðina á fræðimanninum Þorvaldi Gylfasyni. Af öllum þeim vonbrigðum eru þessi þó sárust. Það er engin breyting á útlendingapólitíkinni, hér er XD og Útlendingastofnun flokksins fylgt í einu og öllu,“ segir Hallgrímur sem beinir spjótum sínum að fólkinu á myndinni.

„Ég þekki flest af þessu fólki á myndinni og það mest af góðu einu en stundum gerir gott fólk vont. Því eins og Sunna benti á í ræðu sinni á öðrum tímanum í nótt hefði ríkisborgararéttur getað bjargað Uhunoma frá brottvísun, sem hann á enn yfir höfði sér, einn allra þeirra 109 sem sóttu um veitingu. En ætli sé nú ekki fullljóst hversu mikið íhaldsafl VG er í raun.“

Hallgrímur segist binda vonir við kosningarnar í haust og að eftir þær komi ný ríkisstjórn. Hann hrósar lögmanni Osayomore, Magnúsi Davíð Norðdahl, sem hann segir að hafi reynst honum geysivel í öllu ferlinu.

„Hann vermir fyrsta sætið hjá Pírötum í NV- kjördæmi. Það væri nú lagið ef hann eða Þórhildur Sunna Ævarsdóttir yrði næsti Dómsmálaráðherra. Kjósum allavega bara eitthvað annað en stjórnarflokkana,“ segir hann að lokum.