Halldórs minnst með hlýhug: Ógleymanleg ferð til Akureyrar

Halldór Ingi Andrésson, einn mesti tónlistarspekingur þjóðarinnar, var jarðsunginn frá Neskirkju í dag. Halldór, sem rak meðal annars Plötubúðina á Laugavegi um árabil, lést þann 4. júní síðastliðinn, 67 ára að aldri.

Halldór skrifaði mikið um tónlist, meðal annars í Þjóðviljann, Vísi, Vikuna og Morgunblaðið. Árið 1981 varð hann útgáfustjóri hjá Fálkanum og opnaði svo Plötubúðina á Laugavegi árið 1983 sem hann rak til ársins 1996. Eftir það starfaði hann meðal annars sem verslunarstjóri hjá Japis og Virgin Megastore í Kringlunni. Hann stýrði einnig útvarpsþættinum Plötuskápurinn á RÚV og hélt úti vefsíðu þar sem hann fjallaði um tónlist. Síðustu árin starfaði hann sem löggiltur fasteignasali og opnaði sína eigin fasteignasölu, Fasteignaland.

Eftirminnileg ferðalög

Handboltinn átti einnig hug og hjarta Halldórs og var hann formaður unglingaráðs hjá handboltadeild Gróttu um langt skeið. Aðstandendur og kollegar Halldórs minnast hans með hlýjum orðum í Morgunblaðinu í dag.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handbolta, og liðsfélagar hennar úr Gróttuliðinu eru meðal þeirra sem minnast Halldórs.

„Halldór vildi allt fyrir okkur gera og var mættur á alla leikina sem við spiluðum, hvort sem það var í Reykjavík, á Akureyri eða á Spáni. Halldór lifði sig inn í leikinn og kom sér yfirleitt fyrir einhvers staðar þar sem hann gat gengið fram og til baka með krosslagðar hendur og látið í sér heyra ef það var eitthvað sem honum fannst ósanngjarnt,“ segir í minningarorðum þeirra. Þá voru ferðalög Halldórs með liðinu eftirminnileg.

„Halldór var sjálfvalinn fararstjóri með liðinu, hvort sem hann var að keyra rútuna eða hlaða næringu í okkur í hálfleik. Minning okkar um hann að keyra langferðabíl norður á Akureyri um hávetur gleymist seint, sér í lagi þar sem seinna kom í ljós að hann var nánast náttblindur en hann lét það ekki stoppa sig í því að keyra okkur á áfangastað. Þar má einnig nefna ferðirnar á Granollers á Spáni þar sem hann sá vel um liðið ásamt góðum hópi foreldra og kom okkur örugglega á næsta Telepizza-stað þar sem að maturinn í íþróttahöllinni var nánast óætur. Alltaf að hugsa um okkar velferð.“

Mikill fjölskyldumaður

Guðni Már Henningsson, fyrrverandi útvarpsmaður, skrifar einnig minningarorð og segir að hann muni sakna vinar síns. Hann ætli að minnast hans með því að hlusta á tónlist sem þeir hlustuðu svo oft á í Plötubúðinni á Laugaveginum.

Ólafur Helgi Kjartansson, skólabróðir Halldórs úr MR, minnist vinar síns einnig með hlýhug. „Dóri var fjölskyldumaður sem lét sér annt um eiginkonu og dætur. Sá þáttur í fari hans var eftirtektarverður og til eftirbreytni. Nú er komið að leiðarlokum kæri vinur. Umræður um tónlist og lífsins gang verða ekki teknar upp að sinni, því miður,“ segir Ólafur sem þakkar Halldóri fyrir afar góð kynni og vináttu.

Alltaf til í að hlusta og gefa góð ráð

Fleiri hafa minnst Halldórs undanfarna daga, til dæmis Valgarður Guðjónsson úr Fræbbblunum sem skrifaði um kynni sín af honum á heimasíðu sína á dögunum. Valgarður man til dæmis enn eftir plötudómi sem Halldór skrifaði um fyrstu plötu Fræbbblana á sínum tíma.

„Það kom ekki bara skemmtilega á óvart hversu jákvæður hann var heldur var skemmtileg nýbreytni að hann tók þessari frumraun okkar af fullkomnu fordómaleysi, fann jákvæðar hliðar og kveikti á tengingum sem fæstir voru að eltast við að skilja. Hann hafði sem sagt hlustað, skilið og sett í samhengi,“ segir Valgarður sem kynntist Halldóri svo betur þegar sá síðarnefndi varð útgáfustjóri Fálkans og sá um útgáfu á annarri stóru plötu sveitarinnar.

„Það var svo sem ekki gefið að taka þá áhættu að gefa út aðra plötu, því sú fyrsta hafði nú ekki selst mikið, þrátt fyrir að vekja nokkra athygli. En hann lagði sig ekki bara allan fram um að við fengjum allt sem til þurfti til að gera góða plötu, hann var alltaf til í að hlusta og gefa góð ráð – en aldrei að taka fram fyrir hendurnar á okkur,“ segir Valgarður meðal annars.